Brenton Harris Tarrant, 28 ára yfirlýstur fasisti, sem framdi ódæðið var leiddur fyrir dómara að morgni laugardags að staðartíma og honum gerð grein fyrir ákærum á hendur honum.
Mike Bush, lögreglustjóri, sagði við fjölmiðla að ekki væri búið að birta lista yfir fórnarlömbin en nýsjálensk lögregluyfirvöld hafa þó náð sambandi við fjölskyldur þeirra sem létust í hryðjuverkunum.
Fimmtíu létust í árásinni en aðrir fimmtíu særðust og af þeim fimmtíu eru 34 sem enn eru á spítala. Tólf hinna særðu eru taldir vera í lífshættu og þar á meðal fjögurra ára stúlka.
Tarrant er sá eini sem er í varðhaldi og hefur verið ákærður fyrir morðin. Upphaflega voru þrír aðrir handteknir en það kom fljótlega í ljós að þeir tengdust ódæðinu ekki.
Nýsjálensk lögregluyfirvöld eru þó ekki búin að útiloka að fleiri gætu hafa komið að skipulagningu hryðjuverkanna en lögreglustjórinn segist bjartsýnn á að geta haft skýrari mynd af atburðarrásinni innan fárra daga.
