Erlent

Karlmaður á þrítugsaldri ákærður fyrir morð í Christchurch

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikil viðbúnaður er hjá lögreglu á Nýja-Sjálandi vegna fjölldamorðanna í Christchurch.
Mikil viðbúnaður er hjá lögreglu á Nýja-Sjálandi vegna fjölldamorðanna í Christchurch. Vísir/EPA
Lögreglan í Christchurch á Nýja-Sjálandi segir að karlmaður sem er hátt á þrítugsaldri hafi verið ákærður fyrir morð í tengslum við skotárásir í tveimur moskum í dag. Tæplega fimmtíu manns liggja í valnum og tugir til viðbóta eru sárir, þar á meðal ung börn. Nágrenni íbúðar sem er talin tengjast árásarmanni hefur verið rýmt á meðan lögregla leitar þar.

Árásarmaður sem streymdi myndbandi af sjálfum sér myrða fólk í annarri moskunni nafngreindi sjálfan sig og sagðist vera 28 ára gamall Ástrali. Lögreglan í Christchurch staðfesti ekki hvort að hann sé maðurinn sem hefur verið ákærður fyrir morð á blaðamannafundi fyrr í dag.

Þrír aðrir voru handteknir með skotvopn nærri moskunum en ekki liggur fyrir hvort eða hvernig þeir tengjast fjöldamorðinu. Lögreglan fann einnig það sem eru taldar heimatilbúnar sprengjur á bílum. Mikil viðbúnaður er í Christchurch og víðar á Nýja-Sjálandi í kjölfar voðaverkanna.

Af þeim sem létust féll 41 í al-Noor-moskunni á Deans-stræti og átta í Linwood-moskunni austan við miðborgina, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Auk þeirra eru 48 sagðir liggja særðir á sjúkrahúsi borgarinnar. Á meðal þeirra eru ung börn með skotsár.

Greint hefur verið frá því að mögulega séu Indverjar og Bangladessar á meðal þeirra látnu.

Nýsjálenska lögreglan greindi frá því að hún hefði rýmt svæði í kringum fasteign sem er talin tengjast árásinni í borginni Dunedin, suður af Christchurch.

Yfirlýsingu mögulega ætlað að afvegaleiða

Myndbandið af hluta árásanna fór sem eldur um sinu um netið. Lögreglan á Nýja-Sjálandi hefur hvatt fólk til þess að dreifa því ekki frekar. Á því sást maðurinn skjóta á gesti moskunnar, vopnaður hálfsjálfvirkum haglabyssum og riffli.

Svo virðist sem að maðurinn hafi verið virkur í netsamfélögum hægriöfgamanna. Tuga blaðsíðna löng stefnuyfirlýsing sem hann á að hafa birt fyrir árásina er full af lofi um aðra öfgamenn og morðingja, þar á meðal norska fjöldamorðingjanna Anders Behring Breivik.

Stefnuyfirlýsingin virðist hins vegar einnig full af vísunum í minni [e. Meme] sem eru vinsæl í vissum afkimum netsins. Hlutum hennar virðist gagngert hafa verið ætlað að afvegaleiða eða fífla lögreglu og fjölmiðla um raunverulegar hvatir og skoðanir morðingjans.

Ef mark er takandi á yfirlýsingunni virðist árásarmaðurinn aðhyllast rasískar hægriöfgaskoðanir sem ganga út á að múslimar séu að taka yfir vestræn samfélög og útrýma hvítu fólki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×