Körfubolti

Stjarnan með pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina í kvöld

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fyrsta sætið er innan seilingar fyrir Hlyn Bæringsson og Garðbæinga.
Fyrsta sætið er innan seilingar fyrir Hlyn Bæringsson og Garðbæinga. Fréttablaðið/ernir
Lokaumferð Domino’s-deildar karla fer fram í kvöld og þótt það sé ljóst hvaða átta lið fara í úrslitakeppnina og hvaða tvö lið falla er spenna á nokkrum vígstöðvum í kvöld.

Fyrir lokaumferðina eru Njarðvík og Stjarnan jöfn að stigum með 32 stig. Eftir sigur Garðbæinga á Njarðvík á dögunum er Stjarnan með betri árangur innbyrðis og dugar liðinu því sigur í kvöld gegn Haukum á Ásvöllum til þess að verða krýnt deildarmeistari í fyrsta sinn óháð úrslitunum úr leik Njarðvíkur og Skallagríms í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Þetta verður síðasti leikur Haukanna undir stjórn Ívars Ásgrímssonar sem lætur af störfum í lok tímabilsins en það er erfitt að sjá að Haukunum takist að stríða liði Stjörnunnar sem hefur unnið sautján af síðustu átján leikjum í öllum keppnum.

Takist Garðbæingum að vinna í kvöld er deildarmeistaratitillinn þeirra og um leið heimavallarréttur í úrslitakeppninni.

Á Sauðárkróki mætast Tindastóll og Keflavík í hreinum úrslitaleik upp á þriðja sætið fyrir Keflavík en aðstæður Tindastóls eru heldur flóknari. Með sigri Stólanna í kvöld og ólíklegu tapi hjá bæði Stjörnunni og Njarðvík verða Sauðkrækingar deildarmeistarar.

KR-ingar munu sömuleiðis fylgjast spenntir með úrslitunum úr leiknum á Sauðárkróki enda mæta þeir því liði sem tapar í kvöld í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og með KR-sigri í kvöld geta þeir enn náð fjórða sætinu. Ef Stólarnir tapa fyrir Keflavík á sama tíma og KR vinnur Breiðablik stekkur KR upp fyrir Stólana í fjórða sætið og fær heimaleikjarétt í einvígi liðanna.

Þá mætast Grindavík og ÍR í Grindavík þar sem sjöunda sætið verður í boði fyrir sigurvegarana sem er líklegast barátta upp á hvort liðið mætir Stjörnunni og hvort liðið mætir Njarðvík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem hefst eftir viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×