Erlent

Björguðu sex fílsungum úr leðju

Samúel Karl Ólason skrifar
Fílsungarnir sex.
Fílsungarnir sex. Vísir/AP
Starfsmenn Thap Lan þjóðgarðsins í Taílandi björguðu í gær sex fílsungum sem sátu fastir í stórum leðjupolli. Fílarnir komust ekki upp úr pollinum af sjálfsdáðum en þeir fundust á miðvikudagskvöldið. Hluti starfsmannanna sem fundu þá hlupu eftir hjálp en aðrir vörðu nóttinni með fílunum.

Þegar fleiri starfsmenn bar að garði vörðu þeir nokkrum klukkustundum í að grafa upp bakka sem fílarnir gátu notað til að komast upp úr pollinum, við mikil fagnaðarlæti þeirra sem fylgdust með.

Í samtali við AP fréttaveituna segir yfirmaður þjóðgarðsins að ummerki hafi fundist um að stór fílahjörð hafi verið á svæðinu. Ekki liggur fyrir hve lengi fílarnir höfðu verið fastir í pollinum.



Fílar eru þjóðdýr Taílands og voru á árum áður á fána landsins, þegar það hét Síam. Aukin þróun landsins hefur þó leitt til þess að búsvæði þeirra hefur minnkað og fílum hefur fækkað. Nokkrir deyja á ári hverju í árásum fíla í Taílandi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×