Útgöngusáttmáli Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, mun fara til atkvæðagreiðslu á breska þinginu á morgun. Hann hefur þegar verið felldur tvisvar en May vonast til að hann verði samþykktur að þessu sinni eftir að hún sagðist ætla að víkja sem forsætisráðherra ef hann verður samþykktur.
Þingforsetinn, John Bercow, hafði áður lýst því að sáttmálinn mætti ekki fara aftur fyrir þingið óbreyttur. Í dag sagði hann hinsvegar að tillagan um samþykkt sáttmálans hefði tekið nægilegum breytingum og leyfir hann því atkvæðagreiðsluna á morgun.
Atkvæðagreiðslan á morgun þykir nokkuð táknræn þar sem að fyrirhuguð útganga úr Evrópusambandinu átti að fara fram á morgun 29. mars. Atkvæðagreiðslan verður þó með öðru móti en fyrri atkvæðagreiðslur þar sem aðeins verður greitt atkvæði um þann hluta sáttmálans sem fjallar um útgönguna sjálfa en ekki framtíðarsamband Bretlands og Evrópusambandsins.
Andrea Leadsom, þingflokksformaður Íhaldsflokksins, sagði Evrópusambandið einungis tilbúið til að færa útgöngudagsetninguna til 22. maí ef að útgöngusáttmálinn verður samþykktur fyrir ellefu annað kvöld. Því væri það lykilatriði að þingið samþykkti sáttmálann.
Harðlínumenn í Íhaldsflokknum eru líklegari en áður til að greiða atkvæði með sáttmálanum sér í lagi ef að May stígur til hliðar. Þrátt fyrir það er útlitið ekki gott fyrir May þar sem norður-írski sambandsflokkurinn, samstarfsflokkur Íhaldsflokksins, ætlar að greiða atkvæði gegn sáttmálanum.
Brexit sáttmálinn aftur fyrir þingið á morgun

Tengdar fréttir

May segist ætla að hætta ef Brexit samningurinn verður samþykktur
Þingið samþykkti á mánudag að fara sínar eigin liðir í Brexit málum.

Greiða atkvæði um framhald Brexit-mála
Breskir þingmenn munu síðar í dag greiða atkvæði um hvaða leið skuli fara hvað varðar útgöngu Bretlands úr ESB og ganga þannig fram hjá vilja Theresu May.

Allar tillögur þingmanna um hvernig leiða megi Brexit til lykta felldar
Breska þingið samþykkti í kvöld að fresta útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna greiddi atkvæði með frestuninni. Átta tillögur um hvernig leiða eigi Brexit-ferlið til lykta voru hins vegar felldar.