Erlent

Fjórir Bandaríkjamenn féllu í sjálfsmorðsárás í Afganistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Bandarískir hermenn í Afganistan.
Bandarískir hermenn í Afganistan. AP/Hoshang Hashimi
Þrír bandarískir hermenn og einn verktaki féllu í sjálfsmorðsárás í Afganistan í dag og þrír særðust. Árásin var gerð þar sem þeir voru í eftirlitsferð nærri Bagram-flugstöðinni, einni stærstu herstöð Bandaríkjanna í Afganistan. Talibanar hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni, sem er sú mannskæðasta fyrir bandaríska hermenn á árinu.

Það sem af er af árinu hafa sjö bandarískir hermenn fallið í Afganistan. Á öllu síðasta ári féllu þrettán.



Talibanar segja vígamann þeirra hafa ekki bíl hlöðnum sprengiefni að brynvörðum bíl hermanna og sprengt sig í loft upp. Ríkisstjóri héraðsins staðfestir þá frásögn.



Bandaríkin eru nú með um fjórtán þúsund hermenn í Afganistan en þegar mest var voru þeir um hundrað þúsund. Þeir vinna að mestu að því að þjálfa afganska hermenn og aðstoða þá.

Friðarviðræður á milli Bandaríkjanna og Talibana standa nú yfir en á sama tíma keppast báðar fylkingar um að styrkja stöðu sína vegna viðræðnanna. Loftárásum gegn Talibönum hefur fjölgað verulega og hermenn búa sig nú undir árlega vorsókn Talibana, sem hafa þó gert nánast daglegar árásir gegn öryggissveitum Afganistan.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×