Golf

Kim í forystu á fyrsta risamóti ársins

Kim spilaði vel í gær.
Kim spilaði vel í gær. Vísir/Getty
In-Kyung Kim frá Suður-Kóreu leiðir með þremur höggum eftir fyrstu tvo dagana á ANA Inspiration, fyrsta risamóti ársins sem fer fram í Kaliforníu. Hún er á samtals átta höggum undir pari eftir fyrstu tvo hringina.

Kim spilaði frábærlega í gær og kom í hús á 65 höggum. Hún fékk alls átta fugla og einn skolla en Kim púttaði einstaklega vel og þurfti aðeins 25 pútt á holunum átján.

Hún á sjö sigra að baki á LPGA-mótaröðinni, þar af sigur á Opna breska árið 2017. Hún var hársbreidd frá því að vinna ANA-mótið árið 2012 en missti þá stutt pútt í bráðabana fyrir sigrinum.

„Maður getur ekki reiknað með því að allt fari niður,“ sagði hún um púttin sín í dag. „En ég sá línurnar vel og  náði að stjórna hraðanum vel.“









Í öðru sæti er Ástralinn Katherine Kirk sem lék einnig vel í gær. Hún spilaði á 68 höggum og er þremur á eftir Kim á samtals fimm undir pari.

Hin bandaríska Lexi Thompson er í 5.-10. sæti á þremur höggum udnir pari, rétt eins og Sung Hyun Park frá Suður-Kóreu, efsta kona heimslistans í golfi.

Efsti Norðurlandabúinn er Anna Nordqvist frá Svíþjóð sem er ásamt nokkrum öðrum í nítjánda sæti á pari. Hins vegar er landa hennar, Pernilla Lindberg, úr leik þar sem hún missti af niðurskurðinum.

Lindberg er ríkjandi meistari á ANA en náði sér ekki á strik í gær. Hún lék á 78 höggum og endaði á sjö höggum yfir pari, tveimur höggum frá niðurskurðarlínunni.

Bein útsending frá þriðja keppnisdegi hefst klukkan 21.00 á Stöð 2 Sport 4 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×