Erlent

Timbur­kirkju mögu­lega komið upp fyrir framan Notre-Dame

Atli Ísleifsson skrifar
Sóknarpresturinn Patrick Chauvet segir að timburkirkjan myndi þjóna bæði biðjendum og ferðamönnum.
Sóknarpresturinn Patrick Chauvet segir að timburkirkjan myndi þjóna bæði biðjendum og ferðamönnum. Getty
Sóknarprestur Notre-Dame í París hefur lagt til að kirkju úr timbri verði komið upp tímabundið á torginu fyrir framan dómkirkjuna á meðan framkvæmdir við endurbyggingu standa yfir.

Gríðarmiklar skemmdir urður á 850 ára gamalli kirkjunni í stórbruna sem varð á mánudagskvöld. Greint var frá því fyrr í kvöld að rannsakendur telji að skammhlaup hafi valdið eldsvoðanum.

Sóknarpresturinn Patrick Chauvet segir í samtali við frönsku stöðina CNews að slík timburkirkja myndi þjóna bæði biðjendum og ferðamönnum.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur sagt að kirkjan verði endurbyggð og opnuð á ný innan fimm ára. Chauvet segir hins vegar nauðsynlegt að finna einhverja lausn til bráðabirgða á meðan framkvæmdirnir standa yfir.

„Við getum ekki sagt að „dómkirkjan sé lokuð næstu fimm árin og þannig er það bara“. […] Get ég ekki látið reisa tímabundna dómkirkju á torginu,“ spyr Chauvet og bætir við að slík bygging ætti að vera falleg, táknræn og heillandi.

Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísarborgar ku vera samþykk tillögunni.

Í frétt BBC segir að fordæmi sé fyrir slíkri byggingu en timburkirkju var komið fyrir fyrir framan dómkirkjuna í Christchurch á Nýja-Sjálandi eftir að sú skemmdist mikið í skjálftanum mikla árið 2011 þar sem 185 manns fórust.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×