Bandaríski leikarinn Cole Sprouse er staddur á Íslandi, ef marka má færslur hans á Instagram frá því í morgun.
Sprouse deilir þar myndböndum af íslensku landslagi en hann virðist á ferð um Suðurland í rigningunni. Þá heimsækir hann einnig svarta sanda við ísilagt lón, að öllum líkindum Jökulsárlón.
Leikarinn er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Cody Martin í þáttaröðinni The Suite Life of Zack and Cody, sem sýnd var á Disney Channel árin 2005 til 2008. Tvíburabróðir hans, Dylan Sprouse, fór með hlutverk Zack í þáttunum.
Bræðurnir tóku sér frí frá leiklistinni í byrjun áratugarins og settust á skólabekk í New York, þar sem Cole lagði stund á fornleifafræði. Í seinni tíð hefur hann líklega gert garðinn frægastan í þáttunum Riverdale sem sýndir eru á sjónvarpsstöðinni CW.
Ekki er ljóst hvenær Sprouse kom til Íslands eða hversu lengi hann mun dvelja hér á landi. Þess má þó geta að kvikmyndin Five Feet Apart, með Cole í öðru aðalhlutverka, er frumsýnd hér á landi í dag.
Lífið