Handbolti

„Þetta er gangur lífsins í íþróttunum líka“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sebiastan Alexandersson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, var ánægður með frammistöðu Viktors Gísla Hallgrímssonar í jafntefli A-landsliðsins gegn Makedóníu í gær.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, ákvað að skipta út markvarðarteyminu. Björgvin Páll Gústafsson og Aron Rafn Eðvarðsson urðu eftir heima en þeir Viktor Gísli og Ágúst Elí voru teknir með til Makedóníu.

„Björgvin Páll og Aron eru búnir að vera mjög lengi. Þeir eru búnir að standa sig frábærlega fyrir Ísland en þetta er óumflýjanlegt. Þetta er gangur lífsins í íþróttunum líka,“ sagði Sebastian í samtali við Guðjón Guðmundsson.

„Björgvin var ekkert í ósvipaðri stöðu og Viktor Gísli þegar hann komst fyrst inn svo það er spurning hvort að hringurinn sé að fara í nýjan hring.“

Það vakti athygli margra að Ágúst Elí, sem var á síðasta stórmóti með Íslandi, byrjaði ekki í markinu heldur var það hinn ungi Viktor Gísli sem byrjaði í markinu.

„Miðað við frammistöðuna í Olís-deildinni í vetur þá hefði maður haldið að það væri gáfulegra að láta Ágúst Elí byrja en eftir á að hyggja er þetta frábær hugmynd hjá Guðmundi. Hann hefur engu að tapa.“

„Hann getur farið aðeins afslappaðari inn í leikinn og mér fannst hann taka mest allt það sem hann átti að taka. Það er það sem maður vill fá og aukalega tók hann nokkur dauðafæri. Vörnin var stórkostleg í leiknum en margfalt betri en hún var hérna heima.“

„Samt sem áður tók strákurinn það sem hann átti að taka. Það er oft talað um að þú þurfir 50 landsleiki til þess að aðlaga þig þessum bolta. Þá lofar það mjög góðu fyrir framhaldið ef hann ætlar að taka meira en þetta.“

Innslagið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×