Erlent

„Ég sá þann turn bara í ljósum logum“

Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Notre Dame kirkjan í París brennur.
Notre Dame kirkjan í París brennur. vísir/epa
Daníel Ólafsson, arkitekt sem býr í París, var nýkominn úr annarri kirkju þegar hann sá hvar Notre Dame kirkjan stóð í ljósum logum.

„Ég leit svona út götuendann, ég keyri oft fram hjá Notre Dame, ég leit við endann á götunni sem ég var við og sá gulan reykjarmökk sem leit mjög skringilega út og gekk svo áfram,“ segir Daníel í samtali við fréttastofu.

Hann lýsir því að hann hafi svo komið inn á aðra hliðargötu og sá þá að eldurinn var mjög nálægt. Turn sem Viole Dugg, arkitekt, teiknaði ofan á kirkjuna á 19. öld var þá orðinn eldinum að bráð.

Daníel Ólafsson býr í París og sá hið þekkta kennileiti Notre Dame í ljósum logum nú undir kvöld.
„Ég sá þann turn bara í ljósum logum. Það hafa verið byggingaframkvæmdir við hann síðustu mánuði, eitthvað viðhald, og hann bara skíðlogaði,“ segir Daníel.

Hann segist þá hafa gengið nær Notre Dame og sá eldinn dreifa sér.

„Þetta er skelfilegt. Maður vonar að það skemmist ekki eitthvað af þessum málverkum og styttum sem eru þarna,“ segir Daníel.

Ekki er vitað um eldsupptök en embættismenn hafa sagt að eldurinn gæti tengst endurbótum á kirkjunni. Hluti þaks kirkjunnar hefur fallið saman og breiðst eldurinn út. Slökkvistarf er nú í fullum gangi.


Tengdar fréttir

Notre Dame dómkirkjan brennur

Slökkvilið í París í Frakklandi berst nú við mikinn eld í hinni sögufrægu dómkirkju Notre Dame.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×