Erlent

Notre Dame dómkirkjan brennur

Andri Eysteinsson og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Svo virðist sem að mikill eldur logi.
Svo virðist sem að mikill eldur logi. EPA/ Ian Langsdon
Slökkvilið í París í Frakklandi berst nú við mikinn eld í hinni sögufrægu dómkirkju Notre Dame. Samkvæmt fréttaflutningi France24 hefur hluti þaks kirkjunnar fallið saman og eldurinn breiðst úr. Sjá má eina turnspíru falla niður vegna eldsins í myndbandinu að neðan.

Mikil mildi þykir að eldurinn hafi komið upp fimm mínútum eftir að kirkjunni var lokað fyrir ferðamönnum í kvöld. Greint var frá því í fréttaflutningi France24 að listaverkefni kirkjunnar hafi verið bjargað frá eldsvoðanum.

Á samfélagsmiðlum má sjá myndbönd þar sem mikill reykur berst frá kirkjunni og eldtungur stíga upp úr byggingunni. Ekki er ljóst um upptök eldsins en talið er að hann gæti tengst endurnýjun kirkjunnar sem stendur yfir.

Götum í nágrenni kirkjunnar hefur verið lokað vegna slökkvistarfs.



Eitt helsta kennileiti Parísar

Notre Dame kirkjan er eitt helsta kennileiti Parísarborgar og var hún reist á árunum 1163 til 1345. Kirkjan er byggð í gotneskum stíl og stendur á Ile de la Cité, annarri af tveimur eyjum Signu, í fjórða hverfi Parísar. Byrjað var að byggja Notre Dame árið 1160 og var verkinu að mestu lokið árið 1260.

Á tíunda áratug 18. aldar þegar franska byltingin stóð sem hæst voru unnar skemmdir á kirkjunni en skömmu eftir að bók Victor Hugo, Hringjarinn frá Notre Dame, kom út árið 1831 fór kirkjan að njóta vinsælda á ný. Talið er að 12 milljónir manna heimsæki kirkjuna árlega. Kaþólska kirkjan hóf söfnun á síðasta ári til þess að bjarga mætti kirkjunni þar sem hún var byrjuð að molna.



Almenningur virði lokanir

Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar hefur greint frá því að slökkvistarf sé hafið. Einnig hefur hún biðlað til almennings að virða lokanir í kringum kirkjuna sögufrægu.

Frönsk yfirvöld hafa gefið út að um slys hafi verið að ræða, en engar frekari upplýsingar verða gefnar um upptök eldsvoðans að svo búnu.

Borgarsaksóknari Parísar hefur hafið rannsókn á tildrögum brunans. Yfirvöld hafa gefið út að enginn hafi látist í brunanum og einnig að enginn hafi slasast á vettvangi.

Talsmaður kirkjunnar hefur greint frá því að viðargrind kirkjunnar, sem reist var á miðöldum, brenni í heild sinni.

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hefur brugðist við brunanum á Twitter síðu sinni. Macron frestaði fyrirhugaðri ræðu sinni sem stjórnmálaspekingar höfðu kallað „mikilvægustu ræðu stjórnmálaferils forsetans.“

Hér að neðan má sjá beina útsendingu frönsku fréttastöðvarinnar France24.



Fréttin hefur verið uppfærð.

Slökkvistarf stendur nú yfir á Ile de CiteGetty/Stoyan Vassev



Fleiri fréttir

Sjá meira


×