Lífið

Rúrik þénar meira á módelstörfunum en knattspyrnu: „Hann getur orðið stærri en David Beckham“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rúrik var skemmtilegur í Atvinnumönnunum okkar á Stöð 2 í gærkvöldi.
Rúrik var skemmtilegur í Atvinnumönnunum okkar á Stöð 2 í gærkvöldi.
Rúrik Gíslason var gestur í Atvinnumönnunum okkar á Stöð 2 í gærkvöldi. Hann býr í Heidelberg í Þýskalandi og leikur knattspyrnu með B-deildar liðinu SV Sandhausen.

Á HM í Rússlandi síðasta sumar var Rúrik með rúmlega þrjátíu þúsund fylgjendur á Instagram og eftir mótið voru fylgjendurnir orðnir 1,3 milljónir.

Eftir heimsmeistaramótið byrjaði fyrirsætuferill Rúriks að rúlla og kom í ljós í þættinum að hann þéni í raun meira af fyrirsætustörfum en sem atvinnumaður í knattspyrnu, þrátt fyrir að vera á sínum besta samningi á ferlinum hjá SV Sandhausen.

„Í síðasta mánuði var ég með meiri tekjur á svona myndatökum en í fótboltanum,“ segir Rúrik í samtali við Auðunn Blöndal í Þýskalandi.

„Þetta getur alveg skipt töluverðu máli og mig langar alveg að taka þátt í þessu.“

Monika Kistermann er umboðsmaður Rúriks í fyrirsætubransanum.

„Hann er betri en David Beckham,“ segir Kistermann sem hefur áður starfað með Naomi Cambell, Marc Jacobs, Dolce & Gabbana og fleiri þekktum merkjum. Fótboltinn er ástríða hans, en þegar hann verður eldri fær hann nóg að gera sem módel.“

Hér að neðan má sjá brot úr þætti gærkvöldsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×