Innlent

Bruninn á Mýrum leit mjög illa út í fyrstu

Birgir Olgeirsson skrifar
Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarnesi.
Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarnesi. Vísir

Slökkvistarfi á Mýrum er lokið en slökkviliðsstjóri í Borgarnesi segir sinueldinn hafa verið á þó nokkru svæði, þó ekkert í líkingu við brunann á Mýrum árið 2006 þar sem 67 ferkílómetrar urðu eldinum að bráð. Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarnesi, segir aðkomuna hafa verið slæma þegar slökkviliðsmenn komu fyrst á vettvang.



Útkallið barst um fjögur leytið í dag en þá stefndi eldurinn á mikið kjarrlendi. Var óskað eftir aðstoð frá Landhelgisgæslu Íslands sem ræsti út áhöfn þyrlunnar TF-LÍF sem lagði af stað frá Reykjavík með slökkvitunnu. Var það gert vegna þess hvert eldurinn stefndi en hefði hann komist í birkisskóginn hefði slökkviliðsmenn ekki getað komist að honum.



Slökkviliðsmönnum tókst þó að hemja eldinn áður en til þess kom og var þyrlan afturkölluð. Um 30 slökkviliðsmenn, frá Borgarnesi og Akranesi, tóku þátt í aðgerðunum og eru nú að fara heim eftir mikið amstur síðustu klukkutíma. Ekki verður þörf á að vakta svæðið sérstaklega að sögn Bjarna, enda búið að tryggja að glæður leynist hvergi og er byrjað að rigna á Mýrum. Hann segir eldsupptök ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×