Handbolti

Guðjón Valur: Aron fór á kostum og leiðinlegt að nýta það ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson segir að það hefði margt mátt ganga betur hjá íslenska landsliðinu í kvöld en strákarnir okkar máttu þola eins marks tap fyrir Norður-Makedóníu í Laugardalshöllinni í undankeppni EM 2020.

„Við vorum með pálmann í höndunum og gátum klárað þetta, að minnsta kosti fengið eitt stig. En þetta er svekkjandi og við þurfum bara að kyngja því,“ sagði Guðjón Valur.

Ísland var með boltann þegar ellefu sekúndur voru eftir og í sókn. En þá gerðust röð mistaka sem færði Makedóníu sigurmarkið á silfurfati.

„Við þurfum klárlega að spila betur úr þeirri aðstöðu sem við vorum í en við hefðum ekki heldur þurft að koma okkur í þessa aðstöðu. Það er margt sem við hefðum mátt gera betur.“

Hann segir að varnarleikurinn hefði heilt yfir mátt vera betri hjá íslenska liðinu í kvöld. „Við vorum ekki að vinna nógu marga bolta og þeir fengu of góð skot. Sóknarleikurinn var frábær og Aron fór á kostum og leiðinlegt að nýta það ekki. En við vinnum og töpum sem lið, nú þurfum við að bæta okkur fyrir leikinn á sunnudag.“

Guðjón Valur vill ekki segja að það hafi verið áfall fyrir Ísland að tapa í kvöld.

„Tvö stig úr þessum leik og þá hefði þetta litið mjög vel út. En ef við vinnum á sunnudag þá lítur þetta líka vel út.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×