Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Norður-Makedónía 33-34 | Hörmulegt handrit í höllinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson átti ekki góðan dag í marki Íslands.
Björgvin Páll Gústavsson átti ekki góðan dag í marki Íslands. Vísir/Getty
Ungt landslið Íslands í handbolta fékk dýrmæta lexíu í kvöld, er okkar menn töpuðu fyrir Norður-Makedóníu í undankeppni EM 2020 í Laugardalshöll í kvöld. Tapið er hið fyrsta í mótsleik á heimavelli í meira en áratug.

Þrátt fyrir að það hafi ýmislegt gengið á afturfótunum í kvöld, sérstaklega þegar kom að vörn og markvörslu, var Ísland í lykilstöðu á ögurstundu. Þegar ellefu sekúndur voru eftir var Ísland með boltann í sókn og tók leikhlé. Guðmundur Guðmundsson teiknaði upp leikkerfi sem átti að skila Íslandi sigurmark og tvö stig sem hefðu nánast tryggt Ísland sæti á EM 2020.

En ógæfan dundi yfir á örfáum sekúndum. Ómar Ingi Magnússon ætlaði að senda á Aron Pálmarsson en Norður-Makedóníumenn pössuðu á að loka strax á hann. Það kom fát á Ómar Inga sem var nóg til að koma honum úr jafnvægi. Það var dæmt á hann skref en til að gera vont verra kastaði hann boltanum út af vellinum.

Þegar svo lítið er til leiksloka eru reglurnar skýrar. Rautt spjald og andstæðingurinn fær vítakast. Það var einmitt það sem franska dómaraparið dæmdi og skyndilega voru gestirnir með pálmann í höndunum.

Til að gera lokasekúndur leiksins enn skrautlegri þá náði Björgvin Páll Gústavsson að verja vítaskot Dejan Manaskov. En boltinn hrökk beint aftur í hendur Manaskov sem náði að skora áður en leiktíminn rann út. Sorgleg niðurstaða og handrit leiksins síðustu sekúndurnar eins og versti harmleikur.

Ísland byrjaði af miklum krafti í leiknum og komst í 9-5 forystu. En gestirnir voru fljótir að jafna þegar þeir komust í takt við leikinn og héldust liðin í hendur nánast til leiksloka. Íslendingar voru lengur með frumkvæðið en Norður-Makedóníumenn komu sér þó í góða stöðu í seinni hálfleik áður en okkar menn komu sér aftur inn í leikinn.

Lokamínúturnar voru svo æsispennandi sem fyrr segir. Ísland var með boltann þegar tæp mínúta var til leiksloka en Ólafur Guðmundsson skaut í slá. Norður-Makedónía tapaði svo boltanum stuttu síðar þegar leiktöf vær dæmd á gestina og héldu margir eflaust að með því hefði að minnsta kosti annað stigið verið tryggt. En það fór á annan veg.

Af hverju vann Norður-Makedónía?

Alveg eins og hjá Íslandi gekk allt upp í sóknarleik liðsins. Gestirnir skoruðu nánast að vild og sem ber slæman vitnisburð um íslensku vörnina og þá sérstaklega frammistöðu markvarðanna Björgvins Páls Gústavssonar og Arons Rafns Eðvarðssonar. Gestirnir voru baráttuglaðir, seigir og gáfust aldrei upp. Það skilaði þeim afar dýrmætum stigum í baráttunni um sæti á EM.

Hverjir stóðu upp úr?

Aron Pálmarsson var í sérflokki inni á vellinum. Hann skoraði tólf mörk í fimmtán skotum og gaf fjölda stoðsendingar sem skilaði bæði mörkum og vítaköstum. Vörn Norður-Makedóníu réð engan veginn við Aron sem sýndi enn og aftur að hann er með allra fremstu handboltamönnum heims í dag. Að hans framlag hafi ekki dugað til að vinna leikinn er mikil synd fyrir íslenska liðið.

Hvað gekk illa?

Markvarsla Íslands, í stuttu máli sagt. Norður-Makedóníumenn skoruðu mikið úr hornunum og með langskotum sem íslensku markverðirnir hefðu öllu jöfnu átt að ráða miklu betur við. Það virtist á löngum köflum vera svo að öll skot gestanna rötuðu í markið. Frammistaða Björgvins Páls og Arons Rafns, reyndustu markvarða Íslands, er mikið áhyggjuefni.

Hvað gerist næst?

Ísland mætir Makedóníu ytra á sunnudag og með sigri í þeim leik verður Ísland í mjög sterkri stöðu í riðlinum. Það er því ekki öll nótt úti enn.

Guðmundur: Ég hef áhyggjur af markvörslunni í íslenska landsliðinu

Guðmundur Guðmundsson var niðurbrotinn eftir ótrúlegt tap Íslands gegn Norður-Makedóníu í undankeppni EM 2020 í kvöld.

„Ég er niðurbrotinn. Ég verð að játa það,“ sagði Guðmundur Guðmundsson eftir eins marks tap Íslands fyrir Norður-Makedóníu í undankeppni EM 2020 í Laugardalshöll í kvöld.

Tapið var eins svekkjandi og það verður. Ísland var með boltann þegar ellefu sekúndur voru eftir en tapaði honum þegar Ómar Ingi Magnússon fékk dæmt á sig skref. Til að bæta gráu á svart kastaði hann boltanum út af vellinum og fékk fyrir það rautt spjald auk þess sem Makedónía fékk vítakast.

„Það var ömurlegt að upplifa þetta. Þetta var svo mikill óþarfi en réttur dómur miðað við reglurnar. Við þurfum heldur betur að læra af þessu, það er dýrt að kasta þessu frá sér.“

Guðmundur sagði að það hefði ekki verið hægt að kvarta yfir sóknarleik Íslands, enda skorað í nánast hverri sókn. Gallinn var hins vegar sá að Norður-Makedóníumenn gerðu það líka.

„Við náðum aldrei að losa þá frá okkur. Við fengum til dæmis sárafá hraðaupphlaupsmörk. Þetta var erfiður leikur.“

Björgvin Páll Gústavsson og Aron Rafn Eðvarðsson fundu sig ekki í íslenska markinu í dag. „Sem dæmi skorar hægri hornamaðurinn þeirra átta mörk, allt í hornið nær. Maður spyr sig hvernig það getur gerst. Svo byrja þeir að taka skot alls staðar og hvergi, oft langt að utan. Þetta fór því miður allt inn og ansi mikið ólán yfir því.“

En hefur Guðmundur áhyggjur af stöðu markvörslunnar í landsliðinu?

„Ég skal bara játa það að ég hef áhyggjur af stöðu markvörslunnar. Ég verð að segja það. Alveg eins og við gagnrýnum allt í liðinu. Já, ég hef það.“

Guðjón Valur: Aron fór á kostum og leiðinlegt að nýta það ekki

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði, var svekktur með tapið gegn Norður-Makedóníu í kvöld.

Guðjón Valur Sigurðsson segir að það hefði margt mátt ganga betur hjá íslenska landsliðinu í kvöld en strákarnir okkar máttu þola eins marks tap fyrir Norður-Makedóníu í Laugardalshöllinni í undankeppni EM 2020.

„Við vorum með pálmann í höndunum og gátum klárað þetta, að minnsta kosti fengið eitt stig. En þetta er svekkjandi og við þurfum bara að kyngja því,“ sagði Guðjón Valur.

Ísland var með boltann þegar ellefu sekúndur voru eftir og í sókn. En þá gerðust röð mistaka sem færði Makedóníu sigurmarkið á silfurfati.

„Við þurfum klárlega að spila betur úr þeirri aðstöðu sem við vorum í en við hefðum ekki heldur þurft að koma okkur í þessa aðstöðu. Það er margt sem við hefðum mátt gera betur.“

Hann segir að varnarleikurinn hefði heilt yfir mátt vera betri hjá íslenska liðinu í kvöld. „Við vorum ekki að vinna nógu marga bolta og þeir fengu of góð skot. Sóknarleikurinn var frábær og Aron fór á kostum og leiðinlegt að nýta það ekki. En við vinnum og töpum sem lið, nú þurfum við að bæta okkur fyrir leikinn á sunnudag.“

Guðjón Valur vill ekki segja að það hafi verið áfall fyrir Ísland að tapa í kvöld.

„Tvö stig úr þessum leik og þá hefði þetta litið mjög vel út. En ef við vinnum á sunnudag þá lítur þetta líka vel út.“

Aron: Verður ekki verra

Aron Pálmarsson segir að leikmenn Íslands geti aðeins sjálfum sér um kennt eftir tapið gegn Norður-Makedóníu í kvöld.

Aron Pálmarsson var eins og aðrir niðurlútur eftir tap Íslands fyrir Norður-Makedóníu í undankeppni EM 2020 í kvöld.

„Þetta verður eiginilega ekki verra,“ sagði Aron. Ísland var með boltann þegar ellefu sekúndur voru eftir en tapaði honum og færði gestunum einnig vítakast sem skóp sigurmark gestanna.

„Við erum með sénsinn en klúðrum þessu á klaufalegan hátt. Svo kemur víti og rautt. Þetta er eiginlega fáránlegt en við getum sjálfum okkur um kennt,“ sagði Aron.

Ómar Ingi Magnússon gerði mistökin afdrifaríku í leikslok. Hann fékk dæmt á sig skref og kastaði boltanum út af vellinum. Fyrir það fékk Makedónía vítakast.

„Ég held að hann Ómar þekki alveg reglurnar og ég þykist vita að hann ætlaði ekki að gera þetta. Þetta var eitthvað sem gerðist í hita leiksins - ég vona það allavega,“ sagði Aron sem fór á kostum í dag og skoraði tólf mörk fyrir Ísland.

„Það gekk mjög vel í sókninni og það er gríðarlega svekkjandi að hafa ekki nýtt sér það. Við spiluðum einfaldan bolta sem þeir réðu ekkert við,“ sagði hann.

„Það dregur líka úr manni að það vantaði hraðaupphlaupsmörkin þar sem að vörn og markvarsla var ekkert spes hjá okkur í dag. Þetta tók því allt saman mjög mikið á. Við fengum á okkur meira en 30 mörk á heimavelli sem er lélegt. Við viljum ekki vera  þekktir fyrir það.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira