Erlent

Mikið reiðufé fannst á heimili al-Bashir

Andri Eysteinsson skrifar
Omar al-Bashir í Kremlin í Rússlandi síðasta sumar.
Omar al-Bashir í Kremlin í Rússlandi síðasta sumar. Getty/Mikhail Svetlov
Við húsleit á heimili fyrrverandi forseta Súdan, Omar al-Bashir, sem vikið var úr embætti fyrr í mánuðinum fannst mikið magn reiðufé. BBC greinir frá því að í híbýlum al-Bashir hafi fundist skjalatöskur fullar af reiðufé í nokkrum gjaldmiðlum. Alls fundust um 350 þúsund Bandaríkjadalir, sex milljónir Evra og fimm milljarðar súdanskra punda, heildarupphæðin nemur um 1,5 milljörðum íslenskra króna.

Omar al-Bashir, sem nú er talinn sitja í hámarksöryggisfangelsinu Kobar, sat í embætti forseta í 30 ár eða frá 1989. Forsetatíð hans hófst á valdaráni og var hann í embætti á meðan að borgarastyrjaldir hafa geisað í landinu.

Al-Bashir varð í mars 2009 fyrsti sitjandi forseti ríkis sem dæmdur hefur verið af stríðsglæpadómstólnum í Haag, al Bashir var dæmdur fyrir aðkomu sína að ofbeldi í Darfur-stríðinu. 2011 sleit suðurhluti landsins sig frá norðurhlutanum og stofnað var nýtt sjálfstætt ríki, Suður-Súdan, þar hefur nú geisað borgarastyrjöld frá árinu 2013.

Setu al-Bashir í stóli forseta hefur verið mótmælt í ríkinu frá desember síðastliðnum, 30 ára embættistíð hans lauk 11. apríl síðastliðinn með valdaráni hersins. Hann er nú rannsakaður vegna gruns um peningaþvætti eins og greint var frá fyrr í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×