Íslenski boltinn

Ágúst mátaði nýjan Kópavogsvöll: "Þetta er eins og alvöru gras“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, er spenntur að fara spila á heimavelli Blika en verið er að ljúka við það að setja gervigras á völlinn.

Breiðablik ákvað eftir síðasta tímabil að skipta grasinu út fyrir gervigras en völlurinn verður ekki klár fyrir fyrsta heimaleik. Verið er að ljúka við það að setja gervigrasið á og Ágúst labbaði inn á völlinn í dag.

„Þetta er geggjað. Þetta er hrikalega flott og eins og alvöru gras. Ég er hrikalega spenntur að fá að spila hérna 19. maí gegn Skaganum. Það er mikil tilhlökkun,“ sagði Ágúst er hann rölti um völlinn með Guðjóni Guðmundssyni, Gaupa.

Breiðablik á heimaleik gegn Víking annað kvöld en Kópavogsvöllur er ekki klár. Því spilar Breiðablik á Wurth-vellinum upp í Árbæ annað kvöld.

„Við höfðum samband við vini okkar upp í Árbæ. Þeir tóku vel í það. Það er frábær aðstaða þar, svipað gras og svipaðar aðstæður svo við kýldum á það.“

„Við fáum vonandi bara fullt af áhorfendum og gerum þetta að okkar heimavelli í þetta skipti og verður okkar vígi. Ég er líka spenntur fyrir því.“

Ágúst er ágætlega ánægður með byrjunina hjá þeim grænklæddu úr Kópavoginum.

„Við erum enn inni í öllum keppnum. Við fórum áfram í bikar og unnum fyrsta leik. Við lentum svo í smá vandræðum gegn HK en náðum þar í dramatískt stig sem hjálpar okkur í baráttunni.“

„Við tökum því en það var erfiður leikur og við við höldum áfram. Það er enginn sem tekur það stig af okkur núna. Núna er það næsti leikur gegn Víking og við ætlum að taka þrjú stig þar.“

Hann segir að mótið fari vel af stað og það séu mörg góð lið með í Íslandsmótinu þetta tímabilið.

„Liðið í toppsætinu er með fjögur stig. Þetta er rétt að byrja og fyrirheitin eru mjög góð. Liðin eru í toppstandi og þetta eru vel mönnuð lið. Það er gaman að sjá nýliða og aðra vera að standa sig vel,“ sagði Ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×