Íslenski boltinn

Sölvi: „Finnst við hafa verið rændir marki“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sölvi Geir í baráttunni í leiknum í kvöld
Sölvi Geir í baráttunni í leiknum í kvöld vísir/vilhelm
Víkingur og FH gerðu 1-1 jafntefli í lokaleik annarrar umferðar Pepsi Max deildarinnar í fótbolta. Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings, skoraði mark sem var dæmt af og hann sagði Víkinga hafa verið rænda marki.

Brandur Olsen var sendur út af með sitt annað gula spjald í lok fyrri hálfleiks og voru Víkingar því manni fleiri allan seinni hálfleikinn.

„Alls ekki sáttur með stigið. Við eigum að klára svona leik þar sem við erum einum manni fleiri allan seinni hálfleikinn. Við erum mjög svekktir að tapa þessum tveimur stigum,“ sagði Sölvi Geir í leikslok.

Víkingar byrjuðu seinni hálfleikinn af nokkrum krafti en eftir það var ekki mikið að frétta í sóknarleik þeirra og átti FH hættulegri færi þegar líða tók á leikinn.

„Það er það sem ég er svekktur með, að við skildum ekki hafa nýtt seinni hálfleikinn betur.“

„Betri færi, ég veit það nú ekki alveg. Mér finnst að við vorum rændir marki þarna í seinni hálfleik, ég sé ekki hvað hann er að dæma á dómarinn, eitthvað hefur hann séð dómarinn.“

„Vissulega sáttur með frammistöðuna hjá liðinu, svona mest megnis, þó að mér finnst að við hefðum átt að vera ákafari í seinni hálfleik.“

Eftir fyrstu tvær umferðirnar er Víkingur með tvö stig eftir leiki við Val og FH. Fyrir fram hefði lið sem var spáð fallbaráttu af flestum, líklega verið sátt með þá útkomu?

„Við erum ekki sáttir. Okkur finnst eins og við eigum að vera með sex stig eftir þessa tvo leiki. Við hefðum viljað fá meira, svekktir, en við erum búnir að sýna góða frammistöðu og það er margt sem við getum byggt ofan á.“

„Þrjú stig hljóta að fara að detta inn hjá okkur,“ sagði Sölvi Geir Ottesen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×