Erlent

Nýr danskur hægriöfgaflokkur gæti komist á þing

Kjartan Kjartansson skrifar
Paludan hefur þegar skilað inn undirskriftum til að geta boðið fram í þingkosningum sem eiga að fara fram í síðasta lagi 17. júní.
Paludan hefur þegar skilað inn undirskriftum til að geta boðið fram í þingkosningum sem eiga að fara fram í síðasta lagi 17. júní. Vísir/EPA
Skoðanakönnun í Danmörku bendir til þess að hægriöfgaflokkur sem hatast gegn íslamstrú gæti náð inn manni á þing í kosningum sem haldnar verða á næstu vikum. Leiðtogi flokksins hefur staðið fyrir mótmælum sem leysts hafa upp í óeirðir undanfarnar vikur.

Harðlínuflokkur Rasmusar Paludan fengi 2,4 prósent atkvæða í þingkosningum á þessu ári ef marka má skoðanakönnun Voxmeter sem var birt í dag. Flokkar þurfa að fá að lágmarki tvö prósent til að geta náð mönnum inn á þing. Fylgið er þó innan skekkjumarka könnunarinnar sem voru 2,7 prósent. Tvær aðrar nýlegar kannanir hafa sýnt fylgi flokksins yfir tveimur prósentum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Á meðal stefnumála Harðlínuflokksins er að banna íslam í Danmörku og vísa hundruð þúsundum múslima úr landi. Paludan er frægur fyrir að birta áróður gegn íslam á samfélagsmiðlum og ýmsar uppákomur. Hann hefur meðal annars brennt Kóraninn, trúarrit múslima, stundum vafinn inn í fleskjur.

Nýlega stóð Paludan fyrir mótmælum í Kaupmannahöfn sem enduðu í óeirðum og átökum á milli stuðningsmanna hans og andstæðinga. Lögreglan handtók 23 í mótmælunum í apríl.

Paludan var dæmdur í fjórtán daga skilorðsbundið fangelsi fyrir kynþáttaníð í garð talsmanns réttindahreyfingar blökkumanna fyrr á þessu ári. Hann hefur áfrýjað þeim dómi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×