Íslenski boltinn

Góðir sigrar hjá Þór og Leikni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveinn Elías Jónsson, einn reynslumesti leikmaður Þórs.
Sveinn Elías Jónsson, einn reynslumesti leikmaður Þórs. vísir/ernir
Keppni í Inkasso-deild karla hófst í dag með tveimur leikjum. Í Breiðholtinu vann Leiknir R. 4-1 sigur á Magna og á Akureyri bar Þór sigurorð af Aftureldingu, 3-1.

Leiknismenn áttu ekki í miklum vandræðum með Magnamenn. Sævar Atli Magnússon kom Breiðhyltingum yfir á 14. mínútu og tveimur mínútum síðar bætti Stefán Árni Geirsson öðru marki við.

Sólon Breki Leifsson jók muninn í 3-0 á 55. mínútu en Gunnar Örvar Stefánsson lagaði stöðuna fyrir Magna fjórum mínútum síðar. Það var svo Vuk Oskar Dimitrijevic sem skoraði síðasta mark leiksins á 82. mínútu. Lokatölur 4-1, Leikni í vil.

Alvaro Montejo skoraði tvö mörk Þórsara gegn nýliðunum úr Mosfellsbænum. Fyrra mark hans kom eftir aðeins tveggja mínútna leik. Staðan var 1-0 í hálfleik, Þór í vil.

Alvaro bætti öðru marki við á 54. mínútu og kom heimamönnum í vænlega stöðu. Andri Freyr Jónasson, markakóngur 2. deildar á síðasta tímabili, minnkaði muninn fyrir Aftureldingu á 76. mínútu en tíu mínútum síðar gulltryggði Nacho Gil sigur Þórs.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×