Íslenski boltinn

Hlín: Ætla að gera betur en í fyrra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlín er búin að jafna markaskor sitt frá síðasta tímabili.
Hlín er búin að jafna markaskor sitt frá síðasta tímabili. vísir/bára
„Ég er mjög sátt með þetta. Leikurinn var frábær,“ sagði Hlín Eiríksdóttir sem skoraði þrjú marka Vals í 5-2 sigri á Þór/KA í 1. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í kvöld.

Hlín kom Val yfir snemma leiks en Þór/KA leiddi í hálfleik, 1-2, eftir tvö ævintýraleg mörk.

„Mér fannst vera mjög góður taktur í liðinu en síðan skoruðu þær tvö draumamörk og við vorum frekar lélegar það sem eftir lifði fyrri hálfleiks,“ sagði Hlín.

„Síðan komum við sterkar inn í seinni hálfleik. Við stigum aðeins ofar á völlinn og löguðum pressuna okkar. Hún datt aðeins niður eftir að við lentum undir.“

Valsliðið er ekki árennilegt, sérstaklega ekki fram á við. Hlín segir að það megi þó ekki vanmeta þátt þeirra sem spila aftar á vellinum.

„Mér finnst við ná rosalega vel saman, allt liðið, og þá skorum við mörk. Sóknarmennirnir búa ekki bara til þessi mörk,“ sagði Hlín.

Hún er komin með jafn mörg deildarmörk og allt síðasta tímabil. Þá komu öll þrjú mörkin hennar í stórsigri á FH, 4-0. Hlín kveðst ekki vera búin að setja sér markmið varðandi markaskorun í sumar.

„Ég ætla bara að standa mig betur en í fyrra og hjálpa liðinu að ná sínum markmiðum,“ sagði Hlín að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×