Björgvin hljóp upp að Steini á tæplega 28 mínútum sem óhætt er að segja að sé flottur tími. Raunar hans besti en hans besti tími var tæplega 30 mínútur. Þuríður Erla var tæplega 32 mínútur með vegalengdina.
Í karlaflokki var einn annar Íslendingur meðal 10 efstu. Það var Hinrik Ingi Óskarsson sem var 28:32 mínútur að Steini. Í kvennaflokki voru alls þrjár konur meðal þeirra efstu; fyrrnefnd Þuríður, Jóhanna Júlía Júlíusdóttir sem var 32:48 mínútur og Sandra Hrönn Arnardóttir sem hljóp upp að Steini á 34:06 mínútum.
Í töflunni hér að neðan má sjá bestu tíma dagsins.

Utanvegahlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson, sem setti met í Mt. Esja Ultra-hlaupinu í fyrra þegar hann hljóp ellefu sinnum upp Esjuna á 9 klukkustundum og 39 mínútum, tjáði Vísi að hann ætti von á að einhverjir keppendur myndu sprengja sig.
Hann átti ekki von á að CrossFit-keppendur myndu bæta bestu tíma hlaupara upp að Steini. CrossFit-keppendur væru margir hverjir í fantaformi og góðir í mörgu, en þó þyngri heldur en hefðbundnir hlauparar.
„Stórir vöðvar taka súrefni og það er svolítill flöskuháls í þessu. En það verður gaman að fylgjast með þessu. Það verða einhverjir þarna mjög hraðir, ég gæti trúað því, en ég held að ansi margir sprengi sig þarna, drepi sig gjörsamlega.“
Keppni verður framhaldið síðdegis í Laugardalshöll klukkan sex en dyrnar á Laugardalshöll verða opnaðar klukkan fjögur. Streymt verður beint frá keppninni á Facebook-síðu hennar.
Fréttin hefur verið uppfærð.