Íslenski boltinn

Ásthildur kemur inn í Pepsi Max mörk kvenna og byrjar í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásthildur Helgadóttir lék lengi með sænska liðinu LdB FC Malmö.
Ásthildur Helgadóttir lék lengi með sænska liðinu LdB FC Malmö. Mynd/LdB FC Malmö
Ásthildur Helgadóttir, nífaldur Íslandsmeistari í knattspyrnu kvenna, verður einn af sérfræðingum Pepsi Max marka kvenna á Stöð 2 Sport í sumar.

Fyrsti þáttur Pepsi Max marka kvenna verður í beinni á Stöð 2 Sport 3 í kvöld í umsjón Helenu Ólafsdóttur en þar verður farið yfir fyrstu umferðina sem lýkur með leik Vals og Þór/KA í kvöld.

Útsending Pepsi Max marka kvenna hefst klukkan 20.00 á Stöð 2 Sport 3 í kvöld eða strax á eftir útsendingu frá leik Vals og Þór/KA.

Sérfræðingarnir í sumar verða Ásthildur Helgadóttir, Edda Garðarsdóttir, Gunnar Borgþórsson, Mist Rúnarsdóttir og Vanda Sigurgeirsdóttir en eins og undanfarin ár þá stýrir Helena Ólafsdóttir þættinum.

Ásthildur Helgadóttir og Gunnar Borgþórsson verða með Helenu í þættinum í kvöld en Gunnar er fyrrum þjálfari Selfossliðsins í úrvalsdeild kvenna.

Ásthildur Helgadóttir er ein besta knattspyrnukonan Íslands frá upphafi en hún skoraði á sínum tíma 23 mörk í 69 landsleikjum og 135 mörk í 152 leikjum í efstu deild.

Ásthildur Helgadóttir varð fjórum sinnum Íslandsmeistari með Breiðabliki (1991, 1992, 1995, 1996) og fimm sinnum Íslandsmeistari með KR (1993, 1998, 1999, 2002, 2003). Hún vann auk þess bikarinn þrisvar sinnum.

Ásthildur var þrisvar kjörinn leikmaður ársins í kvennadeildinni (1996, 2002 og 2003) og átti um tíma bæði leikja- og markamet íslenska kvennalandsliðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×