Innlent

Íslenska ríkið dæmt til að greiða 234 milljónir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hæstiréttur
Hæstiréttur FBL/GVA
Hæstiréttur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Grímsnes- og Grafningshreppi 234 milljónir vegna greiðslna úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til sveitarfélagsins sem felldar voru niður á árunum 2013 til 2016. Hæstiréttur klofnaði í málinu en einn dómari skilaði sératkvæði og taldi að sýkna ætti ríkið af kröfum sveitarfélagsins.

Íslenska ríkið hafði áður verið sýknað af kröfum sveitarfélagsins í Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti en Hæstiréttur sneri í dag þeim dómum við.

Greiðslur þær sem felldar voru niður voru svonefnd jöfnunarframlög er tengjast annars vegar tekjutapi vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti og hins vegar vegna launakostnaðar sveitarfélaga af kennslu í grunnskólanum og annars kostnaðar.

Ástæða þess að greiðslurnar voru felldar niður gagnvart Grímsnes- og Grafningshreppi var að heildarskatttekjur sveitarfélagsins af útsvari og fasteignaskatti á hvern íbúa, miðað við fullnýtingu þessara tekjustofna, voru á tilgreindum árum meira en 50 prósent umfram landsmeðaltal. Reglugerð þess efnis tók gildi árið 2012.

 

Hæstiréttur klofnaði

Þetta sætti sveitarfélagið sig ekki við og höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu og krafðist sveitarfélagið að fá 234 milljónir, eða þeir greiðslur sem felldar voru niður á umræddu tímabili. Fjögur önnur sveitarfélög sættu niðurfellingu sömu jöfnunarframlaga af sömu ástæðum og hafa þau öll höfðað sambærilegt mál.

Fjórir dómarar í málinum, meirihluti Hæstiréttar, komust að þeirri niðurstöðu í dag að ríkið hafi ekki haft heimild í lögum til þess að að fella niður greiðslurnar og að ekki væri nóg að byggja á reglugerð, eins og ríkið hafði gert. Því þarf ríkissjóður að greiða sveitarfélaginu fjárhæðina sem deilt var um, 234 millljónir.

Hæstaréttardómarinn Benedikt Bogason skilaði hins vegar séráliti þar sem hann færði rök fyrir því að ríkið væri í raun ekki að draga úr heildargreiðslum til sveitarfélaga, heldur aðeins að ákvarða skiptingu á milli þeirra. Þannig hefði ríkið heimild til þess að skerða greiðslur úr jöfnunarsjóði ef sveitarfélög væri með tekjur verulega umfram landsmeðaltal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×