Rósa Björk, ásamt Tryggva Felixsyni, formanni Landverndar, Halldóri Þorgeirssyni, doktor í plöntulífeðlisfræði sem hafði yfirumsjón með samningaferlinu um Parísarsáttmálann, og Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdarstjóra SAF ræddu loftslagsmál og hvað þyrfti að gera til að sporna við þeirri alvarlegu þróun sem við stöndum nú frammi fyrir.
Tryggvi sagði breytingarnar ekki snúast um að koma í veg fyrir neyslu heldur þyrfti að breyta henni og koma á hringrásarhagkerfi. „Það er draumsýn að minnka losun um 3-6% á ári en hver er hin sýnin? Hún er einfaldlega að við eyðileggjum þessi samfélög sem við höfum þekkt undanfarin hundruð og þúsundir ára,“ sagði hann.
Hann bætti við að okkar verkefni væri ekki að leysa heimsvandann heldur að sanna að þetta væri hægt og svo þyrfti að senda okkar fólk út í heim til að sýna fordæmi og tala fyrir því sem hægt væri að gera annars staðar.
Jóhannes sagði breytingarnar sem samfélagið þyrfti að taka vera eftir fyrirmynd ungs fólks, „breytingarnar sem við stöndum fyrir á næstu árum, þessi nýja hugsun hjá nýjum kynslóðum verður stór hluti af þeim og þær þurfa svolítið að kenna okkur nýja hluti núna og það þurfa allir að horfa á þessi málefni og taka þau til sín.“