Erlent

Jöfn kynja­skipting í nýrri ríkis­stjórn Suður-Afríku

Atli Ísleifsson skrifar
Cyril Ramaphosa tók við sem forseti Suður-Afríku á síðasta ári.
Cyril Ramaphosa tók við sem forseti Suður-Afríku á síðasta ári. ap
Í fyrsta sinn í sögu Suður-Afríku er jöfn kynjaskipting í ríkisstjórn landsins en forsetinn Cyril Ramaphosa kynnti nýja ríkisstjórn sína í dag.

Ramaphosa sagði fyrri ríkisstjórn bæði hafa verið of fjölmenna og óskilvirka og hafi ráðherrum því nú verið fækkað, úr 36 í 28.

„Þetta er mikilvæg aðgerð í þá átt að draga úr ríkisbákninu. Margir töldu ríkisstjórn okkar hafa verið útþembda og við gátum öll sammælst um þetta,“ sagði Ramaphosa.

Tito Mboweni verður áfram fjármálaráðherra í nýrri stjórn, en hann nýtur mikillar virðingar og hefur af flestum þótt standa sig vel í starfi. David Mabuza, sem er náinn samstarfsmaður forsetans fyrrverandi, Jacob Zuma, verður áfram varaforseti.

Cyril Ramaphosa tók við sem leiðtogi flokksins ANC á síðasta ári þegar Zuma var gert að láta af embætti vegna spillingarmála og dvínandi vinsælda flokksins.

Kosningar fóru fram í Suður-Afríku þann 8. maí síðastliðinn þar sem ANC hlaut rúmlega 57 prósent atkvæða, sem þó var nokkuð minna en í síðustu kosningum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×