Í úrskurðinum sem fréttastofa hefur undir höndum segir að leynileg hljóðupptaka Báru Halldórsdóttur á samræðum þingmanna á Klausturbar hafi brotið í bága við persónuverndarlög. Henni er því gert að eyða upptökunni fyrir 5. júní og senda persónuvernd staðfestingu á því. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmaður Báru, segir að svo verði gert.
Alma Tryggvadóttir, sérfræðingur í persónurétti, segir að Miðflokksmenn, sem kærðu upptökuna, standi nú frammi fyrir tveimur möguleikum.

Þá geti þeir einnig borið úrskurð Persónuverndar undir dómstóla telji þeir hann efnislega rangan.
Báru var þó ekki gert að greiða sekt og í úrskurðinum er ítrekað að rannsóknin hafi ekki leitt í ljós einhvers konar samverknað sem gæti haft íþyngjandi áhrif. Í niðurstöðu segir að litið hafi verið til skýringa um að Bára hafi tekið samræðurnar upp þar sem hún taldi ummælin hafa þýðingu í ljósi stöðu þeirra sem þingmanna, sem og að hún hafi verið stödd á Klaustri fyrir tilviljun.

Í fyrri úrskurðum Persónuverndar hafa tilfallandi upptökur á farsíma ekki verið taldar falla undir svokallaða rafræna vöktun, líkt og til dæmis öryggismyndavélar gera. Persónuvernd telur hins vegar þessa upptöku falla þar undir, þar sem hún stendur yfir í fjórar klukkustundir. Alma segir þetta fordæmisgefandi.
Það skiptir sköpum þar sem ef það er vafi uppi um lögmæti svona upptöku skiptir tímalengdin gríðarlegu máli upp á það hvernig þú rökstyður þín vinnslu persónuupplýsinga á upptökunni eða kvartar yfir henni ef þú vilt leita réttar þíns hjá persónuvernd," segir Alma.