Viðburðurinn hófst klukkan 21 í kvöld og var þétt dagskrá. Lögfræðingar Báru sáu um að skrásetja viðburðinn og flutti Halldór Auðar Svansson, fyrrum borgarfulltrúi, opnunarávarp fyrir hönd stuðningshópsins Takk Bára.
„Þetta snýst ekki bara um Báru á móti Miðflokksmönnum eða bara Miðflokksmenn eða Báru, sagan er hið stóra samhengi,“ sagði Halldór Auðar í ávarpi sínu. Hann bað gesti að hafa í huga hver saga upptakanna væri.
Valdir kaflar upptökunnar voru kvaddir sérstaklega áður en þeim var eytt með viðhöfn. Fólki var svo frjálst að grípa í míkrófóninn og segja eitthvað uppbyggilegt og voru gestir hvattir til þess að vera „meira sexý enn í fyrra“ sem er tilvísun í orð Bergþórs Ólasonar sem heyrðust á upptökunni.

„Ég tek ábyrgð, hvað með þau?“ skrifaði Bára við streymið.
Frítt var inn á viðburðinn og voru „óminnismjöður“ og „samviskuskot“ á tilboði. Þá bar kokteill kvöldsins hið skemmtilega nafn „Blackout36“.