Innlent

Sama áhætta á gróðureldum á höfuðborgarsvæðinu og í dreifbýli

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Sama áhætta er á gróðureldum á höfuðborgarsvæðinu og í dreifbýli vegna veðursældar, meiri gróðurs og þurrkatíðar. Aðstoðarslökkviliðsstjóri segir að huga þurfi að brunahólfum sem koma í veg fyrir að eldur breiðist út. Varlega þurfi að fara með allan opinn eld.



Birgir Finnsson aðstoðarslökkviliðsstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu segir aðstæður undanfarið á höfuðborgarsvæðinu fela í sér sömu hættu á gróðureldum og annar staðar á landinu.



„Í þessari þurrkatíð og með þennan mikla gróður þá er í rauninni sama hættan hér á höfuðborgarsvæðinu og í strjábýli, þ.e. hér gróður, það blæs aðeins og það er eldhætta,“ segir Birgir.



Hann segir hins vegar að yfirleitt sé önnur staða uppi á höfðuborgarsvæðinu þegar kemur að flóttaleiðum en á sumarhúsasvæðum eins og t.d. í Skorradal.

Mikilvægt að vakning verði um eldshættu

Hann nefnir að víða í borginni séu gróðursæl útivistarsvæði í nálægð við byggð sem umgangast beri af varúð.



„Við erum með Elliðaárdalinn sem er innan um byggð, Hellisgerði og Hvaleyrarvatn svo dæmi séu tekinn og svo erum við líka með útivistasvæði sem fela í sér mikil verðmæti en eru ekki í nálægð við byggð,“ segir Birgir.



Hann telur mikilvægt að vakning verði um þessi mál.



„Þetta er áhætta sem við Íslendingar þurfum að fara að huga meira að þá bæði við þessir opinberu aðilar og almenningur,“ segir Birgir.

Íhuga þarf að setja upp brunahólf

Birgir segir að eftir þurrkanna á Norðurlöndum síðasta sumar og gróðurelda samfara þeim sé víða verið að undirbúa brunahólf eða varnalínur þar.



„Þetta  er líka hlutir sem við þurfum að horfa til og kanna vel hvort ekki eigi að setja upp slíkar varnalínur hér á landi. Við megum ekki gera lítið úr því Íslendingar að þetta geti bara ekki gerst hér á landi.“ segir Birgir.



Hann brýnir fyrir fólki að fara afar varlega með allan opinn eld og að vera ekki með grill of nálægt íbúðahúsum en heldur ekki of nálægt gróðri.  Þá bendir hann á til umhugsunar að síðasta sumar hafi verið bannað að nota einnotagrill í Noregi vegna þurrka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×