Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KA 2-1 Grindavík | KA-menn lögðu Grindavík fyrir norðan

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Elfar Árni gerði gæfumuninn fyrir KA í dag.
Elfar Árni gerði gæfumuninn fyrir KA í dag. vísir/ernir
KA vann 2-1 sigur á Grindavík í 8.umferð Pepsi-Max deildar karla þegar liðin mættust í brakandi blíðu á Greifavellinum á Akureyri.



Þjálfarar liðanna höfðu hlutverkaskipti eftir síðustu leiktíð þegar Óli Stefán Flóventsson tók við liði KA af Srdjan Tufegdzic sem tók við Grindavík af Óla Stefáni í staðinn. Báðir höfðu þeir starfað lengi fyrir félögin og bjuggust margir við að leikur liðanna í dag yrði fremur lokaður.



Grindvíkingar voru hins vegar skeinuhættir til að byrja með og snemma leiks fékk Patrick Nkoyi tvö góð færi til að koma gestunum yfir. Í fyrra skiptið varði Kristijan Jajalo vel en í seinna skiptið tókst Nkoyi að skalla boltann framhjá Jajalo. Því miður fyrir Grindvíkinga var aðstoðardómarinn búinn að lyfta flaggi sínu á loft til merkis um rangstöðu.



Besta færi leiksins kom hins vegar á 16.mínútu þegar Haukur Heiðar Hauksson var aleinn gegn Vladan Djogatovic. Haukur dúndraði boltanum af alefli en beint í Djogatovic.



Grindvíkingar héldu áfram að ógna, oftast í kjölfarið af því að KA-menn töpuðu boltanum klaufalega en í tvígang kom Jajalo KA-mönnum til bjargar með mjög góðum markvörslum.



Lítið gekk upp í sóknarleik KA og ógnuðu þeir aðallega í föstum leikatriðum. Það kom því sem þruma úr heiðskíru lofti þegar Hrannar Björn Steingrímsson kom KA yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks. Mark Hrannars af dýrari gerðinni þar sem hann smellhitti boltann vel utan vítateigs algjörlega óverjandi fyrir Djogatovic og KA-menn því með forystuna í leikhléi.



Síðari hálfleikur var tíðindaminni en sá fyrri og í raun gerðist fátt markvert á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks. Á 66.mínútu tókst Grindavík hins vegar að jafna metin með skrautlegu marki þar sem Alexander Veigar Þórarinsson var réttur maður á réttum stað og kom boltanum yfir marklínuna eftir að boltinn hafði haft viðkomu í þremur leikmönnum í vítateignum eftir misheppnað skot Gunnars Þorsteinssonar.



Við þetta rönkuðu heimamenn aftur við sér og þeir voru ekki lengi að ná forystunni á nýjan leik því Elfar Árni Aðalsteinsson batt endahnútinn á góða sókn KA á 70.mínútu.



Grindvíkingar komust raunar ekki nálægt því að jafna leikinn aftur í kjölfarið ef frá er talin fín aukaspyrna Arons Jóhannssonar á 86.mínútu en Jajalo var vandanum vaxinn í markinu og kórónaði góðan leik sinn með góðri markvörslu þar.



KA-menn ógnuðu með skyndisóknum og voru nær því að bæta við þriðja markinu en Grindavík að jafna. Fékk Ásgeir Sigurgeirsson til að mynda tvö góð færi en hann var að leika sinn fyrsta leik í sumar.



Niðurstaðan 2-1 sigur KA.



Afhverju vann KA?




KA-menn höfðu meiri gæði þegar komið var á síðasta þriðjung vallarins í leik sem var annars frekar jafn og einkenndist af frekar miklu miðjumoði. Glæsimark Hrannars Björns kom sem þruma úr heiðskíru lofti í lok fyrri hálfleiks þar sem Grindvíkingar höfðu verið betri aðilinn.



Í síðari hálfleik voru KA betra liðið á vellinum og hefðu getað bætt við fleiri mörkum í stöðunni 2-1. Það dróg af Grindavík þegar leið á leikinn á meðan KA-menn efldust eftir því sem á leið og því fór sem fór.



Bestu menn vallarins




Kristijan Jajalo var maður leiksins. Ekki amalegt að eiga markvörð í þessum gæðaflokki á bekknum. Jajalo kom í markið fyrir meiddan Aron Dag Birnuson sem hefur verið að spila vel í sumar. Verður skemmtilegur hausverkur fyrir Óla Stefán að velja markmann þegar Aron Dagur jafnar sig af meiðslum.



Annars nokkuð jöfn frammistaða hjá KA-liðinu. Enginn glans spilamennska en KA-menn geta verið ánægðir með vinnuframlag sinna manna. Alexander Groven spilaði frábærlega sem vinstri vængbakvörður.



Í liði Grindavíkur stóð Aron Jóhannsson upp úr og var þeirra atkvæðamestur í sóknarleiknum en þurfti sárlega á meira framlagi frá félögum sínum í sókninni að halda.



Einkunnir allra leikmanna má sjá með því að smella á Liðin efst í lýsingunni.



Hvað gekk illa?




Patrick Nkoyi er maðurinn sem Grindvíkingar treysta á í markaskorun. Hann hefur aðeins skorað eitt mark í sumar og það kom í 2.umferð þann 5.maí síðastliðinn. Markaþurrðin virðist vera farin að hafa áhrif á sjálfstraust kappans því hann átti í miklum erfiðleikum á Akureyri í dag. Leikmaður sem þarf að taka meira til sín ef Grindavík ætlar að ná markmiðum sínum í sumar.



Hvað er næst?




KA-menn eiga aftur heimaleik um næstu helgi þegar Víkingur kemur í heimsókn. Á sama tíma verða Grindvíkingar í heimsókn hjá Íslandsmeisturum Vals.

Óli Stefán: Bjarni eins og kóngur á miðjunni
Óli Stefán lagði sína gömlu lærisveina í dagvísir/bára
„Gríðarlega ánægður og stoltur af strákunum. Við lögðum mikla vinnu í þennan leik og það var meginþemað þegar við vorum að undirbúa þennan leik því Grindavík er gríðarlega sterkt og skipulagt lið og þú þarft að vera tilbúinn í það ef ekki á illa að fara,“ sagði sigurreifur Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, í leikslok.

Hann sagði það ekki hafa haft áhrif á undirbúninginn að hann væri að mæta sínum gömlu lærisveinum.

„Ég lagði mikla áherslu á það hér hjá mínu félagi að þetta yrði ekkert aðalatriði. Við einbeittum okkur að þessum leik eins og við nálgumst alla aðra leiki. Þetta snýst um fótbolta, ekki þjálfarana og ég held að Túfa, vinur minn, sé sammála því en vissulega skrýtið að koma inn í leik á móti liði sem maður á mikla sögu með,“ sagði Óli.

Meiðslalisti KA er fremur langur en liðið lék án Arons Dags, Torfa Tímoteusar, Almarrs Ormarssonar, Ólafs Arons Péturssonar í dag og þá þurfti Haukur Heiðar Hauksson að yfirgefa völlinn í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Hefur Óli Stefán áhyggjur af þessari stöðu?

„Maður er alltaf áhyggjufullur yfir meiðslum en þess vegna er svo gott að vera með stóran og breiðan hóp. Ég hef sagt það síðan í vetur að við erum með stóran, góðan og breiðan hóp af ungum og sprækum leikmönnum sem koma inn og grípa tækifærið og það er það sem er svo gaman við þetta.“

„Við fáum strák eins og Bjarna Aðalsteins. Við þurfum að kalla hann til baka úr láni frá Magna og hann kemur inn í þennan leik að stíga sín fyrstu skref með okkur og er eins og kóngur á miðjunni. Það er það sem er svo gefandi við þetta starf. Þegar maður getur gefið strákum tækifæri og þeir skila svona frammistöðu,“ sagði Óli Stefán að lokum.

Túfa: Að sjálfsögðu hef ég áhyggjur af sóknarleiknum
Srdjan TufegdzicVísir/Ernir
„Ég er vonsvikinn að tapa leiknum. Mér fannst þetta samt góður leikur af okkar hálfu. Fyrsta markið kemur á mjög slæmum tímapunkti fyrir okkur eftir að við höfðum verið líklegri til að skora fyrsta markið. Við náum að jafna en þeir gera mjög vel í seinna markinu. Við fáum svo góðar sóknir til að ná í allavega stig og mér hefði ekki fundist það ósanngjörn niðurstaða,“ sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari Grindavíkur, í leikslok.

Túfa var mjög ósáttur með að hans menn skyldu ekki fylgja jöfnunarmarkinu betur eftir því KA náði forystunni aðeins fjórum mínútum eftir jöfnunarmark Grindavíkur.

„Ég var mjög svekktur með það. Það mikilvægasta í fótbolta er að fá ekki á þig mark strax eftir að þú skorar. Ég reyndi að kalla á strákana að bæta aðeins í en KA gerði bara vel. Þeir eru með flotta leikmenn.“

Grindavík hefur aðeins skorað 7 mörk í fyrstu 8 leikjunum í sumar og segir Túfa það klárlega vera áhyggjuefni.

„Að sjálfsögðu hef ég áhyggjur. Það er ekki hægt að halda hreinu í öllum leikjum. Við erum að reyna að vinna í því eins og við getum. Ég hef trú á því að við náum að snúa því. Það er planið að laga sóknarleikinn því ef við gerum það erum við bara í toppbaráttu,“ sagði Túfa. 

Vladimir Tufegdzic var fjarri góðu gamni í dag. Hvers vegna var það?

„Túfa er meiddur. Hann meiddist í leik á móti HK eftir að menn höfðu verið að gagnrýna hann fyrir að dýfa sér. Þá fékk hann 3-4 tæklingar þar sem ekkert var dæmt og hann er meiddur. Ég á von á því að hann snúi fljótlega aftur,“ sagði Túfa að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira