Miedema sló markametið þegar Hollendingar tryggðu sér farseðilinn í 16-liða úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Miedema sló markamet hollenska landsliðsins í sigrinum á Kamerún.
Miedema sló markamet hollenska landsliðsins í sigrinum á Kamerún. visir/getty
Holland er komið áfram í 16-liða úrslit heimsmeistaramóts kvenna eftir sigur á Kamerún, 3-1, í E-riðil í Valenciennes í dag. 

Evrópumeistararnir hafa unnið báða leiki sína á HM. Þeir mæta Kanada í lokaumferð riðlakeppninnar á fimmtudaginn.

Markamaskínan Vivianne Miedema skoraði tvö mörk í dag og er orðin markahæsti leikmaður hollenska landsliðsins frá upphafi með 60 mörk þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára.



Miedema kom Hollandi yfir á 41. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Shanice van de Sanden. Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Gabrielle Onguéné fyrir Kamerún og staðan var 1-1 í hálfleik.

Aðeins tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Dominique Bloodworth kom Hollandi aftur yfir með skoti af stuttu færi.

Þegar fimm mínútur voru til leiksloka gulltryggði Miedema sigur Hollendinga þegar hún skoraði með föstu skoti sem Annette Ngo Ndom, í marki Kamerún, réði ekki við. Lokatölur 3-1, Hollandi í vil.

Kamerún hefur tapað báðum leikjum sínum á HM og er í neðsta sæti E-riðils. Liðið mætir Nýja-Sjálandi á fimmtudaginn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira