Umfjöllun: Grikkland - Ísland 28-28 | Björguðu jafntefli gegn Grikkjum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. vísir/getty
Íslenska karlalandsliðið í handbolta gerði jafntefli við Grikki ytra í undankeppni EM 2020. Ísland mun nú leika úrslitaleik um beint sæti á EM gegn Tyrkjum á sunnudag.

Þrátt fyrir öll varúðarorð frá Guðmundi Þórði Guðmundssyni landsliðsþjálfara þá á íslenska liðið að vera sterkara en það gríska. Íslendingar sýndu það með 35-21 stórsigri í Laugardalshöll í október og voru þeir með yfirhöndina í fyrri hálfleik.

Íslenska liðið náði hins vegar aldrei að hrista heimamenn almennilega af sér í fyrri hálfleik. Ísland skoraði fyrstu tvö mörkin en Grikkir jöfnuðu. Þeir jöfnuðu svo aftur í 6-6 en þá fór Ísland í fjögurra marka áhlaup.

Eftir grískt leikhlé komu heimamenn til baka en náðu þó ekki að jafna metin aftur fyrir hálfleik, staðan 12-15 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Íslenska vörnin stóð ekki alveg eins sterk og hún getur staðið, Ágúst Elí Björgvinsson átti engan stórleik í markinu og nokkrir klaufalegir tapaðir boltar í sókninni í fyrri hálfleik. Engin stórbrotin frammistaða en leikurinn var þó þægilega í höndum íslensku strákanna.

Seinni hálfleikurinn var hins vegar hreint út sagt slæmur hjá íslenska liðinu.

Grikkir náðu að vinna upp muninn og jafna leikinn á fyrstu þremur mínútunum í seinni hálfleik og komust yfir 16-15. Íslendingar vöknuðu þá aðeins til lífsins og komust fljótt yfir aftur en það var ekki sjón að sjá íslenska liðið í þessum seinni hálfleik.

Vörnin og markvarslan var engin og sóknarleikurinn gekk engan vegin upp. Hann var hugmyndasnauður og íslenska liðinu gekk illa að brjóta upp vörn Grikkja. Grikkir voru með yfirhöndina í leiknum í seinni hálfleiknum, komust yfir aftur þegar hann var hálfnaður. Þeir komust ítrekað í gegnum íslensku vörnina og stóðu sína vörn.

Af 28 mörkum Íslands komu 16 þeirra frá hornamönnunum tveimur, Arnóri Þór Gunnarssyni og Guðjóni Val Sigurðssyni, og þeir skoruðu að vanda nokkur mörk úr hraðaupphlaupum.

Íslenska liðið var í raun heppið að sleppa með stig, Grikkir voru með unninn leik í höndunum undir lokin en Arnór Þór Gunnarsson skoraði jöfnunarmark Íslands á síðustu sekúndunum.

Þar sem Norður-Makedónía vann Tyrkland er Ísland enn í nokkuð vænlegri stöðu. Norður-Makedónía er á toppi riðilsins með sjö stig, Ísland er með sex og Tyrkir fjögur. Efstu tvö liðin fara beint á EM og fjögur bestu af átta liðum í þriðja sæti fara einnig áfram. Ísland þarf því aðeins stig úr lokaleiknum gegn Tyrkjum í Laugardalshöll til þess að tryggja sig inn á EM.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira