Súdanskar öryggissveitir beittu táragasi til þess að tvístra hópum mótmælenda í Khartoum, höfuðborg Súdan í dag. Mótmælin eru þau stærstu frá því að tugir voru drepnir í mótmælum 3. júní síðastliðinn. BBC greinir frá.
Tugir þúsunda mótmæla í dag, víðs vegar um landið til þess að freista þess að koma herstjórn Súdan, sem hrifsaði völd frá hinum þaulsetna Omari al-Bashir í apríl. Mikið var um hermenn á vettvangi mótmælanna og beittu þeir táragasinu í fjórum hverfum Khartoum, borginni Omdurman og í Gadaref.
Þá er talið að einn hafi látist í mótmælum í Atbara í dag og er hann sagður hafa verið skotinn í brjóstkassann.
Skipuleggjendur mótmælanna fengu í gær skilaboð frá hershöfðingja sem sagði að þeir myndu bera ábyrgð á öllum skemmdum og þeirri eyðileggingu sem stafaði frá mótmælunum. Skipuleggjendurnir segjast taka þeim skilaboðum sem hótunum en skömmu fyrir mótmælin réðust vopnaðar sveitir inn til samtakanna SPA sem standa fyrir hluta mótmælanna og komu í veg fyrir blaðamannafundi samtakanna.
Afríkusambandið og Eþíópíustjórn hafa undanfarið unnið hörðum hönum við að koma stríðandi aðilum að samningaborðinu, án árangurs.
