Umfjöllun og viðtöl: Keflavík 1-5 Valur │ Valur með fimm í seinni hálfleik

Gabríel Sighvatsson skrifar
Valskonur skoruðu fimm mörk í seinni hálfleik.
Valskonur skoruðu fimm mörk í seinni hálfleik. vísir/bára
Valur fór suður með sjó þegar liðið heimsótti Keflavík í Pepsí Max deild kvenna í kvöld.

Heimamenn áttu góðan fyrri hálfleik og náðu að stríða toppliðinu. Þær spiluðu góðan varnarleik og héldu Valsliðinu í skefjum. Keflavík náði einnig að setja mark úr skyndisókn til að leiða í hálfleik.

Í seinni hálfleik fór allt á versta veg. Valur jafnaði leikinn eftir rétt rúma mínútu og þá opnuðust flóðgáttirnar. Áður en yfir lauk höfðu gestirnir skorað fimm mörk.

Eftir lofandi byrjun gat Keflavík ekki haldið út og Valsliðið tók þrjú stig eftir sannfærandi seinni hálfleik.

Af hverju vann Valur?

Keflavík spilaði frábæra vörn í fyrri hálfleik og neyddi Val í hluti sem þær vildu ekki. Í seinni hálfleik fékk Valsliðið mikið meira pláss og tíma með boltann. Þær gátu spilað sinn leik og þá sprungu þær út.

Gæðin voru að lokum of mikil fyrir Keflavík þar sem Valur sótti hratt á þær og refsaði fyrir hver mistök.

Hvað gekk illa?

Þetta var svolítið leikur tveggja hálfleika. Ekkert gekk upp hjá Val í fyrri hálfleik, einu færin þeirra komu úr fyrirgjöfum og annars ógnuðu þær ekki mikið. Keflavík náði að skora úr eina hættulega færinu þeirra og það meira að segja sjálfsmark.

Í seinni hálfleik gaf Keflavík eftir og vörnin sem hafði verið svo traust í fyrri hálfleik brast. Valsliðið gekk á lagið og skoraði hvað eftir annað í seinni hálfleik til að klára leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er ekki hægt að segja að neinn hafi staðið upp úr heilt yfir þar sem liðin áttu sitthvoran góðan hálfleik. Í seinni hálfleik fengu framherjar Vals veislu. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði 2 mörk. Þá skoruðu þær Fanndís Friðriksdóttir, Dóra María Lárusdóttir og Málfríður Anna Eiríksdóttir eitt mark.

Allar ofantaldar áttu góðan leik. Elín Metta Jensen átti flottan leik og átti tvær stoðsendingar, ásamt því að vera sífellt ógnandi og að skapa færi. Þá má líka nefna Hlín Eiríksdóttur sem átti afbragðsleik.

Hvað gerist næst?

Valur er enn á toppnum, fer upp í 25 stig. Næsti leikur þeirra er gegn Þór/KA á Akureyri og er ljóst að það verður erfitt verkefni.

Keflavík er enn í 8. sæti en með mun verri markatölu en fyrir leik. HK/Víkingur og KR eiga bæði möguleika á að stökkva upp fyrir liði með sigri á næstu dögum. Næsti leikur Keflavíkur er gegn Fylki.

Gunnar Magnús sagði fyrri og seinni hálfleikinn hafa verið gjörólíkan hjá sínu liði.vísir/vilhelm
Gunnar Magnús: Gæðin í Valsliðinu komu í ljós

Keflavík spilaði góðan fyrri hálfleik og var Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari liðsins, ánægður með það en í seinni hálfleik fór að halla undan fæti.

„Þetta var flottur fyrri hálfleikur hjá okkur, við héldum skipulagi og gáfum fá færi á okkur. Síðan fáum við mark á okkur strax í byrjun seinni hálfleiks, þá koðnuðu stelpurnar og fóru inn í einhverja skel. Við áttum ekki breik í seinni hálfleik, gæðin í þessu Valsliði komu í ljós en á móti þá vorum við að leyfa þeim að spila sinn bolta,“ sagði Gunnar Magnús.

„Ég var ekki alveg sáttur við stelpurnar í seinni hálfleik, þær voru ekki að spila eins og við vorum að leggja upp og af sama kraftmóði og í síðustu tveimur leikjum og í fyrri hálfleik. Svo er þetta blessaða frí ekkert að fara alltof vel með okkur. Þetta eru alltof langar pásur en núna kemur smá leikjahrina og við komumst vonandi í okkar gír.“

„Við fáum mark á okkur snemma og það kemur upp eitthvað vonleysi hja stelpunum, þær gerðu 3 mörk á fyrsta korterinu. Með hverju marki fóru þær meira inn í sig og að fela sig,“ sagði Gunnar.

Flest lið hafa þurft að lúta í lægra haldi fyrir þessu ógnarsterka Valsliði á tímabilinu.

„Við ætluðum að fá eitthvað út úr þessum leik í dag en leikirnir á móti Val og Breiðablik, það eru liðin sem skera sig úr í þessari deild og sennilega er það bónus að ná í stig á móti þessum liðum. Við fókuserum á okkar frammistöðu og það er næsti leikur,“ sagði Gunnar Magnús að lokum.

Pétur hrósaði Keflavík fyrir frammistöðuna í fyrri hálfleik.vísir/bára
Pétur Péturs: Mættum til leiks í seinni hálfleik

„Þetta var mjög erfiður leikur í fyrri hálfleik, Keflavík sýndi hvað þær eru með gott lið. Þær voru aggressívar, pressuðu okkur vel og spiluðu leikinn frábærlega í fyrri hálfleik,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, eftir sigur liðsins á Keflavík.

Valsliðið átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en sýndi betri hliðar sínar í þeim síðari og uppskar jöfnunarmark á 2. mínútu hálfleiksins.

„En eigum við ekki að segja að við höfum mætt til leiks í seinni hálfleik - almennilega - og við sýndum gæðin og hvernig við getum spilað þegar allir eru samstíga,“ sagði Pétur.

„Þegar við fórum að gera okkar hluti, sem við erum góðar í, þá gekk allt miklu betur. Það skiptir alltaf máli hvenær þessi mörk koma og þetta mark kom strax eftir eina mínútu. Ég var búinn að tala um það mikið fyrir leikinn að þetta var nákvæmlega það sem Keflavík myndi gera á móti okkur, þær komu okkur ekkert á óvart. Við spiluðum okkar leik fyrst og fremst og gerðum það vel.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira