Pétur Halldórsson, stjórnarmaður í Landvernd og Birna Lárusdóttir upplýsingafulltrúi Vesturverks voru gestir Kristjáns Kristjánssonar í Sprengisandi í morgun. Þar var framkvæmd og undirbúningur Hvalárvirkjunar rædd. Skiptar skoðanir er um virkjunina og hafa meðal annars landeigendur kært framkvæmdarleyfið.
„Það er verið að kæra framkvæmdarleyfið sem við fengum á vormánuðum, til þess að hefja undirbúning fyrir rannsóknir sem við viljum fara í næsta sumar. Kveikjan að þessum kærum eru auðvitað framkvæmdaleyfin en ekki ferðalög um fallega landið okkar. Jú þetta er rétt á meðan að þessar kærur eru í meðferð hjá úrskurðarnefndinni þá getum við bara haldið áfram okkar striki því það er enginn búin að stöðva okkur í því,“ sagði Birna Lárusdóttir hjá VesturVerki.
Stjórnarmaður Landverndar, Pétur Halldórsson, segir að ýmsum spurningum hafi enn ekki verið svarað.
„Í apríl síðastliðnum sendu Ungir Umhverfissinnar bréf til hreppsnefndar og spurði hvort þessi samanburður hefði verið gerður á mismunandi leiðum til þess að flytja rannsóknarbúnað. Það var vel áður en framkvæmdaleyfið var gefið út en þau hafa enn ekki svarað þessum spurningum,“ sagði Pétur.
Birna telur kærurnar til þess fallnar að tefja framkvæmdirnar.
„Við teljum að þær séu á mjög hæpnum forsendum. Við teljum að nefndinni sé fátt annað stætt en að vísa þeim frá,“ segir Birna
Þá segir hún virkjunina gríðarlega búbót fyrir svæðið.
„Hvalárvirkjun mun reynast gríðarlega mikilvæg í því að tryggja sjálfbærni Vestfjarða í orkuöflun og orkuvinnslu,“
Sögðu Birna Lárusdóttir upplýsingafulltrúi VesturVerks í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.