Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Grindavík 0-0 │Aftur markalaust hjá Grindavík

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur vísir/daníel
Grindavík sótti stig í Garðarbæinn í kvöld í 12. umferð Pepsi Max deildar karla. Umdeildur dómur í seinni hálfleik var eflaust á milli tannana á fólki og ef hann hefði farið með Grindavík hefðu þeir líklegast tekið öll stigin í kvöld. 

 

Fyrri hálfleikurinn byrjaði rólega en það kom kafli um miðjan hálfleikinn þar sem bæði lið hefðu auðveldlega getað skorað. Guðmundur Steinn Hafsteinsson leikmaður Stjörnunnar kom boltanum yfir línuna eftir tæplega korter af leiknum. Markið var hinsvegar dæmt af þar sem hann var búinn að handleika knöttinn. Guðmundur Steinn fékk síðan nokkur góð færi til að stanga boltanum í netið í fyrri hálfleik en hitti hann aldrei nægilega vel. 

 

Grindavík fékk sín tvö einu færi í fyrri hálfleik með tæplega 30 sekúndna millibili. Fyrst fékk Josip Zeba skot í teig Stjörnumanna sem Haraldur Björnsson markmaður Stjörnunnar ver mjög vel. Síðan missa heimamenn boltann og Sigurður Bjartur Hallson fær þá fyrirgjöf með engan í kringum sig. Aftur nær Haraldur hinsvegar að verja og halda laki Stjörnumanna hreinu. 

 

Á 61. mínútu gerist stærsta atvik leiksins. Sigurður Bjartur fær fyrirgjöf á nærstönginni og skallar í átt að markinu. Haraldur Björnsson markmaður Stjörnunnar ver boltann en boltinn virðist hafa farið inn áður. Þorvaldur Árnason dómari leiksins byrjar á að benda að þetta hafi verið mark en skiptir síðan um skoðun og gefur Stjörnunni aftur boltann. Það var erfitt að sjá þetta úr blaðamannastúkunni en einhverjir gárungar á Twitter vilja meina að þetta hafi verið mark. Það verður allavega athyglisvert að sjá þetta hjá Herði og félögum í Pepsi Max mörkunum á sunnudaginn.

 

Nýr leikmaður gekk til liðs við Grindavíkur fyrir leik kvöldsins hann Oscar Manuel Conde Cruz eða Primo eins og mér skilst hann vera kallaður. Hann kom inná á 70. mínútu og var næstum því búinn að skora fyrsta mark Grindavíkur í seinustu þremur leikjum einungis tveimur mínútum síðar. Primo komst einn í gegn á móti Haraldi en Haraldi varði meistaralega í markinu. 

 

Stjarnan fékk nokkur afbragsðfæri í seinni hálfleik til að skora en það var aldrei nóg. Hilmar Árni var einu sinni kominn einn á móti Vladan í marki Grindavíkur en þá var færið eflaust of þröngt. Heiðar Ægisson var næstum því með opið mark en þá náði Elias Tamburini einhvern veginn að pota boltanum í burtu. Það vantaði alltaf eitthvað uppá hjá Stjörnunni í kvöld og þeir voru að mörgu leyti bara heppnir að sleppa með stigið. 

 

Af hverju varð jafntefli?

Hvorugt liðið gat komið boltanum yfir línuna. Báðir markmenn verja dauðafæri og bæði lið fá mörk dæmd af sér. Það var allt á móti markaskorun í kvöld einhvern veginn. Liðin voru annars heilt yfir svipað góð en Grindavík voru kannski aðeins betri í seinni á meðan Stjarnan átti fyrri hálfleikinn.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Haraldur Björnsson átti nokkrar frábærar vörslur auk þess að eiga teiginn í kvöld. Það er búið að gagnrýna hann í sumar en hann steig upp í dag. 

 

Josip Zeba og Marc McAusland eru með betri hafsentapörum deildarinnar. Þessar gæjar loka rosalega vel á færi andstæðingana. Í hvert einasta skipti sem Stjörnumaður hélt að hann væri laus í teig Grindavíkur var Grindjáni mættur að fara fyrir skotið hans. 

 

Heiðar Ægisson var örugglega besti útileikmaður Stjörnunnar í kvöld. Hann var arkítektinn á bakvið nokkur af þessum færum sem Stjarnan fékk fyrstu 60 mínútúrnar þegar hann var í bakverðinum og var síðan færður upp á kantinn þar sem hann var ennþá hættulegri. 

 

Sigurður Bjartur Hallson átti flottan leik fyrir Grindavík í kvöld. Hann náði nokkrum sinnum að vinna boltann á hættulegum stöðum en vantaði síðan hjálp til að keyra á vörn Stjörnunnar. Hann hefði eflaust verið maður leiksins ef markið hans hefði staðið en skallinn hans þar var góður.

 

Hvað gekk illa?

Það er kannski augljóst eftir markalausan leik en að nýta færin sín. Bæði lið fengu alveg sín færi en menn létu markmennina líta vel út í dag. Þeir voru reyndar báðir fínir en bæði lið áttu tækifæri sem þau nýttu sér engan veginn. 

 

Stjörnunni gekk kannski betur að skapa sér færi en Grindavík en það er líka bara eðlilegt. Ef Stjarnan ætlar í Evrópu næsta sumar eða hvað þá að verða Íslandsmeistarar þá verða þeir að skapa sér fleiri færi gegn botnliðunum sama hvað Grindavík eru þéttir varnarlega. Sóknarleikurinn var oft tilviljanakenndur og þeirra besti leikmaður fram á við var eflaust hægri bakvörðurinn sem var síðan færður á kantinn, Heiðar Ægisson.

 

Grindavík þurfa að fara að hugsa sinn gang sóknarlega. Þrír leikir í röð í deildinni án þess að skora er ekki boðlegt í efstu deild. 

 

Hvað gerist næst?

Stjarnan einbeitir sér núna að Levadia Talinn í Evrópudeildinni en þeir spila við þá næstu tvo fimmtudaga. Leikurinn næsta fimmtudag er á heimavelli og í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. 

 

Grindavík fær góða hvíld fyrir næsta leik og það kæmi mér ekkert á óvart ef þeir myndu jafnvel líka bæta við sig leikmanni fyrir þann tíma. Þeir taka á móti Skaganum þar næsta mánudag.

 

Rúnar: Heppnir að fá ekki mark á okkur

“Ég er ekki ánægður með það,” sagði Rúnar Páll Sigmundsson aðspurður hvort hann hafi verið ánægður með að skora ekki gegn Grindavík í leik kvöldsins. 

 

Stjarnan skoraði ekki í kvöld en hvað hefðu þeir eiginlega getað gert til að ná í hin tvö stigin?

 

„Skora mörk. Skjóta á markið og reyna að koma boltanum framhjá markmanninum. Um það snýst þetta og það gekk ekki nógu vel hjá okkur í dag. Það er bara svoleiðis.” 

 

„Við hefðum getað nýtt skyndisóknirnar okkar betur. Mér fannst við klúðra málunum fyrir framan markið þeirra.” 

 

Ævar Ingi Jóhannesson meiddist í dag og gat því ekki verið með í kvöld. Sóknarleikurinn var nú ekki sérstakur í kvöld og maður verður að spyrja sig hvort þeir hefðu frekar getað skorað ef þessi góði leikmaður hefði verið með í kvöld. 

 

„Ævar er búinn að standa sig vel í síðustu leikjum. Það kom svolítið hratt uppá okkur hérna í dag að hann var slæmur í kálfanum. Við þurftum að gera breytingu fyrir leikinn. Sama á við um Martin. En við stilltum upp mjög sterku liði. Það vinnur ekki leikinn. Það er bara svoleiðis.” 

 

Varnarleikur Stjörnunnar var nokkuð góður allan leikinn. Grindavík skoruðu mögulega þetta mark sem var dæmt af en annars fengu þeir bara eitt dauðafæri í leiknum. 

 

„Ég er nokkuð ánægður með varnarleikinn. Við fáum samt líka alveg dauðafæri á okkur. Við vorum heppnir að fá ekki mark á okkur. Mér fannst við stjórna þessum leik en við náðum ekki að klára þetta og það var ekki gott hjá okkur.” 

 

Stjarnan tekur á móti Levadia Talinn í Evrópu deildinni á fimmtudaginn. Það getur oft verið erfitt að gíra sig upp fyrir leik í deildarkeppninni þegar næsti leikur er svona mikilvægur. 

 

„Auðvitað eru þeir leikir alltaf undirliggjandi. Það er alltaf gaman að taka þátt í Evrópukeppninni. Núna fara bara næstu tvær vikurnar í það. Það er bara gaman að taka þátt í því. Það er alltaf spenna í leikmönnum að fá að taka þátt í Evrópukeppni.” 

 

 

Tufa:Ef Jóhann Gunnar hefur rétt fyrir sér ætla ég að bjóða honum í mat

Grindavík náði í kvöld í dýrmætt stig gegn Stjörnunni í Pepsi Max deild karla. Leikurinn fór 0-0 en Grindavík átti jafnvel skilið öll stigin þrjú. Grindjánar eru bæði búnir að fá fæst mörk á sig í deildinni í sumar og skora fæst en þeir spila gríðarlega þéttan varnarleik. 

 

„Ég held að við höfum átt skilið sigurinn miðað við frammistöðuna í seinni hálfleik. Mér fannst við bara vera geggjaðir í seinni hálfleik. Við sýndum að við getum líka spilað góðan fótbolta,” sagði Srdjan Tufegdzic þjálfari Grindavíkur að leik loknum um frammistöðu sinna manna. 

 

Sigurður Bjartur Hallson fékk skalla af stuttu færi í seinni hálfleik sem Haraldur Björnsson varði en boltinn gæti mögulega hafa farið yfir línuna. Fyrst virðist eins og Þorvaldur Árnason dómari leiksins hafi dæmt mark en síðan skiptir hann um skoðun og gefur Stjörnunni boltann.

 

„Við fengum dauðafæri til að vinna þennan leik. Síðan er mark sem var dæmt af sem verður að sjá betur. Ef Jóhann Gunnar hefur rétt fyrir sér þá ætla ég bara að bjóða honum í mat.” 

 

Hvert mynduð þið fara út að borða?

 

„Hann má velja.” 

 

Framkvæmdin í kringum þennan dóm var smá furðuleg. Allir á vellinum héldu að dómarinn hafi dæmt mark en síðan snýr hann sér við og gefur Stjörnunni boltann og uppkast. Grindjánar voru verulega ósáttir. 

 

„Það voru leikmenn hjá mér sem stóðu nálægt markinu sem voru bara að standa og bíða eftir að dómarinn dæmi mark. Þeir vilja meina að boltinn hafi verið langt fyrir innan. Jóhann er einn af okkar bestu aðstoðardómurum og hann tekur bara sína ákvörðun en við verðum að sjá þetta betur.” 

 

„Mer sýnist Þorvaldur upprunulega dæma mark en breyti síðan um skoðun eftir að tala við Jóhann. Við getum hinsvegar ekki breytt þessu núna.” 

 

Varnarleikur Grindavíkur var góður í kvöld en þeir hleyptu ekki mörgum færum á sig. Það hefur hinsvegar vantað uppá mörkin hjá Grindavík í sumar en þeir eru ekki búnir að skora í seinustu 3 deildarleikjum.

 

„Við erum búnir að spila varnarleikinn rosalega vel yfir sumarið. Ég vill meina að við séum Atletico Madrid íslensku deildarinnar. Það þarf bara að skora markið, við fengum alveg góð færi í dag. Þetta hlýtur að fara að koma hjá okkur.” 

 

Oscar Manuel Conde Cruz spilaði í kvöld sinn fyrsta leik fyrir Grindavík. Hann kom inná á 70. mínútu og gerði góða hluti fyrir spilið hjá Grindavík. 

 

„Hann var bara nokkuð sprækur. Hann kom fyrir tveimur dögum síðan og er bara að koma inn í þetta. Ég vonast eftir miklu frá honum.” 

 

Oscar Manuel eða Primo eins og hann er kallaður fékk dauðafæri fljótlega eftir að hann kom inná þegar hann komst einn í gegn á móti Haraldi Björnssyni markmanni Stjörnunnar. En átti hann ekki að skora úr þessu?

 

„Alveg klárlega. Ég hefði skorað úr þessu færi í spariskónum í mínum.” 

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira