Viðskipti innlent

Grunur um að skatt­kerfið sé mis­notað í skipu­lagðri glæpa­starf­semi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri. fréttablaðið/vilhelm
Milljarðar króna sem eiga að fara í ríkissjóð tapast á ári hverju vegna kennitölumisnotkunar íslenskra fyrirtækja.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir í samtali við Morgunblaðið í dag að vísbendingar séu um að hér á landi séu erlendir glæpahópar að hasla sér völl sem herji hugsanlega á þessa veikleika íslenska skattkerfisins.

Embætti hennar hefur til rannsóknar nokkur mál þar sem félög hafa verið keypt, aðilar settir í stjórn til málamynda sem engin tengsl hafa við reksturinn og síðan er kennitala lögaðilans og virðisaukaskattsnúmer misnotuð.

Er þetta gert með þeim hætti að gefnir eru út tilhæfulausir reikningar til annarra félaga sem nýta þessa reikninga til þess að lækka hjá sér virðisaukaskatt, lækka greiðslu vegna tekjuskatts og ná fjármunum út úr fyrirtækjum án greiðslu skatts eða í því skyni að greiða fólki dulin laun í formi reiðufjár.

Misnotkunin snýr að því að komast yfir kennitölu fyrirtækja sem hafa opið virðisaukaskattsnúmer en einnig eru til dæmi um að kennitölur einstaklinga séu misnotaðar með þessum hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×