Erlent

Lögregla stöðvaði framleiðslu falsaðra lúxusbíla

Andri Eysteinsson skrifar
Falsaðir Lamborghini bílar í bígerð.
Falsaðir Lamborghini bílar í bígerð. AP/ Lögreglan í Itajaí
Lögreglan í brasilíska ríkinu Santa Catarina hafði á dögunum hendur í hári starfsmanna bílaverksmiðju sem sendi frá sér falsaða lúxusbíla á færibandi.

Verksmiðjan, Autos Fibra, hafði auglýst starfsemi sína á Instagram og var með eigin YouTube rás. Lögreglu barst ábending um brot Autos Fibra og var ekki lengi að átta sig á hlutunum. Guardian greinir frá.

Síðasta mánudag réðust lögreglumenn til atlögu og gerðu áhlaup á vörugeymslu í hafnarborginni Itajaí. Þar fundu lögreglumenn átta ökutæki, mis-tilbúin þó. Um var að ræða tvær Ferrari eftirlíkingar og sex Lamborghini eftirlíkingar.

Enginn var handtekinn eftir aðgerðir lögreglu en tveir menn, feðgar, 53 ára og 29 ára verða ákærðir fyrir brot á hugverkalögum.

„Þetta er glæpur þar sem að merki fyrirtækjanna og hönnun er tekin og notuð,“ sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Angelo Fragelli. Bílarnir eru sagðir hafa verið sannfærandi í útliti en vélarnar voru teknar úr öðrum bílum þar á meðan úr Mitsubishi Eclipse, Alfa Romeo eða Chevrolet Omega.

Segja fjölmiðla reyna að draga fyrirtækið í svaðið

Lúxusbílar eins og þeir sem framleiddir voru hjá Autos Fibra kosta á bilinu 6 til 8 milljónir en ósviknir bílar á bilinu 50 til 83 milljónir króna.

Autos Fibra hefur brugðist við ásökunum á hendur sér með myndbandi á YouTube, þar gagnrýnir fyrirtækið fjölmiðla fyrir að hafa reynt að draga þeirra heiðvirða fyrirtæki niður í svaðið.

Við höfum ekki lokað. Starfsemin er eins og venjulega. Við munum klára þá bíla sem viðskiptavinir okkar hafa pantað, sagði annar mannanna og sagði fyrirtækið hafa verið starfandi í 25 ár.

Lamborghini hyggst ekki kæra mennina en Ferrari hafði ekki svarað fyrirspurnum Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×