Vísindamenn frá Bandaríkjunum og Kanada vinna að verkefninu ásamt nemendum frá Háskólanum í Reykjavík. Prófanir fara fram á afskekktum stöðum í nágrenni Langjökuls. Þriggja vikna rannsóknartíminn er um hálfnaður.
Kjartan Bjarmi Árnason, nemandi í hátækniverkfræði í Háskólanum í Reykjavík, segir þetta vera draumaverkefni til að taka þátt í. „Flestir jeppar sem hafa verið sendir til Mars hafa bilað af því að þeir lenda í einhverjum gildrum. Þetta verkefni á að hjálpa jeppanum að komast frá þessum gildrum með því að nota hugbúnað.“

„Jeppann, sem verður notaður, er verið að smíða núna í Kaliforníu. Hann verður tilbúinn á réttum tíma,“ segir Ryan Ewing, aðstoðarprófessor við Texas A&M háskólann.
Marsjeppinn Opportunity er týndur á reikistjörnunni Mars eftir að hafa verið þar í fimmtán ár. Samband rofnaði við jeppann eftir storm á Mars.
„Við vonum að tækni eins og jarðvegsgreiningarhugbúnaðurinn okkar hefði, ef hann hefði verið í þeim jeppa, getað séð hættuna fyrir,“ segir Ewan Reid, framkvæmdastjóri Mission Control Space Services.

„Inni í tjaldinu er líkt eftir fólki á jörðinni sem skoðar gögn frá Mars. Þessum gögnum frá Mars safnar jeppinn sem er kannski nokkur hundruð metra frá tjaldinu. Fólkið í tjaldinu hefur ekki séð landslagið sem verið er að kanna svo það kemur blindandi á staðinn,“ segir Ryan Ewing hjá Texas A&M háskólanum.