Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - FH 1-2 | Lennon með bæði mörkin í öðrum sigri FH í röð

Einar Kárason skrifar
Lennon skoraði bæði mörk FH-inga í Eyjum.
Lennon skoraði bæði mörk FH-inga í Eyjum. vísir/vilhelm
Frábært veður var til knattspyrnuiðkunnar þegar ÍBV tók á móti FH á Hásteinsvelli í dag. Gestunum úr Hafnarfirðinum hafði ekki gengið vel gegn Eyjamönnum í undanförnum leikjum liðanna en þeir fengu ekki stig á móti þeim á síðustu leiktíð.

Leikurinn fór kröftuglega af stað og gaf Priestley Keithley tóninn strax í byrjun leiks með glæfralegri tæklingu á Cédric D’Ulivo. Stuttu síðar var Steven Lennon nálægt því að koma FH yfir eftir ævintýralegt úthlaup Rafaels Veloso, markvarðar ÍBV, en Rafael náði að blaka boltanum afturfyrir á síðustu stundu.

Fyrsta korter leiksins var algjörlega gestanna en þeir áttu þó í erfiðleikum með að skapa sér almennileg marktækifæri. Það var ekki fyrr en eftir um 20 mínútna leik að heimamenn gerðu atlögu að marki gestanna með ágætu samspili en, eins og marg oft í þessum leik, varð ekki skotfæri úr þeirri sókn.

Mínútu síðar vildi Gary Martin, sóknarmaður ÍBV, fá vítaspyrnu þegar hann komst með boltann inn í teig FH en frábær varnarleikur Guðmanns Þórissonar varð til þess að Gary náði ekki að koma skoti að marki. Leikmenn ÍBV ósáttir við niðurstöðu dómarans og fékk Sindri Snær Magnússon, fyrirliði ÍBV, gult spjald fyrir mótmæli.

Þegar rétt rúmur hálftími var liðinn fengu gestirnir dæmda vítaspyrnu þegar Diogo Coelho braut á Jákup Thomsen. Færeyingurinn lá óvígur eftir á vellinum og varð hann að yfirgefa völlinn á börum. Steven Lennon tók vítaspyrnuna og sendi Rafael í rangt horn. FH komnir yfir og staðan slæm fyrir ÍBV. Björn Daníel Sverrisson og Guðmann reyndu á Rafael stuttu fyrir hálfleik en markvörðurinn vandanum vaxinn og varði þær tilraunir. Staðan því 0-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Eyjamenn áttu fyrstu tilraun síðari hálfleiks þegar Telmo Castanheira átti hörkuskot fyrir utan teig en rétt yfir markið. Eftir það tóku Hafnfirðingar öll völd en, rétt eins og í fyrri hálfleiknum, var skortur á alvöru tilraunum að marki. Eftir nokkur skot utan af velli sem lítil hætta stafaði af dró til tíðinda eftir 70 mínútna leik.

Halldór Orri Björnsson hrissti þá Sigurð Arnar Magnússon af sér innan teigs og náði skoti að marki sem Rafael hélt ekki. Fyrstur til að átta sig var Steven Lennon sem kom boltanum í netið af stuttu færi gegn varnarlausum Rafael. Gestirnir komnir tveimur mörkum yfir og miðað við hvernig þessi leikur hafði spilast fram að þessu var ekkert í kortunum að ÍBV gæti einhverju náð úr leiknum.

Mikill hiti var í leiknum og þá sérstaklega á síðustu mínútum leiksins. Mönnum lenti saman trekk í trekk og misgáfuleg orð litu dagsins ljós. Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, og hans menn höfðu í nægu að snúast en fimm spjöld fóru á loft á fjögurra mínútna kafla undir lokin. Þegar mínúta var eftir af venjulegum leiktíma flautaði Eiríkur víti þegar Jónatan Ingi Jónsson, leikmaður FH, braut klaufalega á Telmo.

Á punktinn fór Gary Martin, sem lítið hafði sést í þessum leik, og skoraði af öryggi framhjá Daða Frey Arnarssyni í markinu. Það reyndist þó of lítið og of seint fyrir Eyjamenn að bjarga stigi úr þessum leik og ekki varð staðan betri þegar Víðir Þorvarðarson gerði sig sekan um dómgreindarleysi þegar hann renndi sér í Atla Guðnason með tvo fætur á undan sér og fékk réttilega að líta sitt síðara gula spjald og þar með rautt.

Leiknum lauk því með 1-2 sigri FH sem nú eru í 5. sæti deildarinnar með 19 stig eins og Stjarnan á meðan ÍBV er enn með fimm stig á botni deildarinnar.

Ólafur vonast til að meiðsli Jákups Thomsen séu ekki alvarleg.vísir/bára
Ólafur: Vitum meira með Thomsen þegar bólgur hjaðna

„Mér fannst þetta í raun og veru aldrei í hættu,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, eftir sigurinn á ÍBV í dag.

„Mér fannst við hafa góð tök á leiknum. Svo kom þetta víti. Við vitum að ÍBV-liðin gefast aldrei upp svo það var nú vitað að það væri von á því að þeir kæmu tímabundið til baka með áhlaup en það var gott að vera kominn í 2-0. Ég er ánægður með sigurinn. Stigin þrjú og spilamennskuna. Við erum ánægðir með hvernig leikmennirnir tóku ásinn á vellinum. Reynsla og þéttleiki og kannski einfaldleiki. Uppleggið gekk upp og stigin góð.“

FH hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir vont gengi á þeirra mælikvarða. Hvert kemst FH í sumar?

„Í næsta leik á móti HK til að byrja með. Ég sagði eftir síðasta leik að fókusinn væri á að gera sig klára fyrir þennan leik hérna. Nú er hann búinn og það er smá pása þannig séð. Það er ekki hægt að komast á skrið ef menn fara á flug og missa sig eitthvað. Við einbeitum okkur bara að næstu æfingaviku og leiknum,“ sagði Ólafur.

„Ég svo sem þykist vita hvert FH liðið getur farið en um leið og ég melda það út þá eru menn fljótir á lyklaborðið. Það bítur mann í rassgatið. Ég hef engan áhuga á að setja það í loftið.“

Blaðamaður spurði út í Jákup Thompsen eftir leik en hann fór meiddur af velli eftir að hafa fiskað vítið sem braut ísinn í leiknum.

„Brotið. Ekki fiskað. Það var brotið á honum. Ástæðan fyrir því að ég greip inn í er að hann fiskaði ekki vítið heldur var brotið á honum. Hann fékk manninn ofan á sig. Á neðri legginn, kálfann. Hann fékk slink á hnéð því miður. Vonandi er það ekki alvarlegt en það er slæmt að missa hann en vonandi þegar bólgur hjaðna vitum við meira en við fyrsta kastið gat hann ekki haldið áfram.“

Ólafur var ánægður með þá sem komu inn á í leiknum.

„Menn komu inn og stigu inn og þeir sem komu inn, Jónatan, Þórir og Atli, skiluðu góðu verki. Það var liðsheildin sem var sterk í dag,“ sagði Ólafur að lokum.

Jeffs segir að Eyjamenn þurfi að vera með grunnatriðin á hreinu.vísir/vilhelm
Jeffs: Vildum taka minni áhættu á aftasta þriðjungi

Ekki var mikið um færi í leik ÍBV og FH. Minna um fallegan fótbolta en þrjú mörk litu dagsins ljós, eitt hjá heimaliðinu og tvö hjá gestaliðinu. Gefum Ian Jeffs orðið.

„Þú ert búinn að svara spurningunni þinni sjálfur held ég,“ sagði Jeffsy hlæjandi.

„Þetta var ekki rosalega fallegur fótboltaleikur. Annar leikurinn í röð sem er svona. Skiljanlega frá okkur. Þegar þú ert í þessari stöðu sem við erum í með fimm stig á botninum er rosalega erfitt að reyna allt í einu að spila einhvern samba fótbolta. Við þurfum að ná grunnatriðum í lag og byggja ofan á það.“

„Þetta er svolítill baráttu fótbolti en því miður, enn og aftur, töpum við leik sem við áttum alveg möguleika í. Ég var ekki ánægður með fyrri hálfleikinn. Við vorum alltof langt frá mönnum. Komumst í ágætis stöður sóknarlega en vorum barnalegir.“

„Vorum ekki að pressa nógu vel. Stundum of hátt en pressum boltamenn ekki nógu vel. Skiljum þannig eftir svæði fyrir aftan okkur. Stundum vorum við að droppa neðar til að verða þéttari en settum enga pressu á boltamann. Þá var auðvelt fyrir hann að velja sendingu.“

Mikið var um háa bolta, kýlingar og læti. Var þetta upplegg ÍBV í leiknum?

„Þetta varð svolítið eftir hvernig leikurinn spilaðist. Við vorum búnir að ræða þetta í vikunni. Við vildum taka minni áhættu á aftasta þriðjungi. Við viljum ekki reyna að spila okkur mikið úr pressunni. Við viljum losna við boltann til að fækka mistökum í þessum stöðum. Við þurfum að byrja á því. Þegar við erum með boltann viljum við fá hann niður og byrja að spila. Þetta var svolítið eftir því hvernig leikurinn þróast. Hvorugt liðið spilaði mikinn fótbolta. Menn eru bara pirraðir og svekktir með hvernig gengi liðsins hefur verið,“ sagði Jeffsy um þau spjöld sem liðið fékk í dag en voru þau flest fyrir munnsöfnuð og læti.

Víðir Þorvarðarson fékk að líta tvö gul spjöld með stuttu millibili. Annað fyrir læti án bolta og svo síðara fyrir glórulausa tæklingu.

„Víðir missti hausinn aðeins í dag. Hann er í banni í næsta leik og þarf að kyngja því. Þetta hjálpar liðinu ekkert. Við erum að reyna að koma á stöðugleika og það er erfitt þegar við erum með tvo menn í banni í næsta leik,“ sagði Jeffs.

Eyjamenn eru í tólfta og neðsta sæti deildarinnar, sex stigum frá öruggu sæti.

„Það er erfitt að svara því hverjir möguleikar okkar eru þegar við erum búnir að vinna einn leik í sumar. Við þurfum bara að byrja á því að taka einn leik í einu og reyna að ná í 3 stig. Svo getum við hugsað um næsta leik. Ég vil ekki hugsa um hvernig staðan er í deildinni og horfa á framtíðina. Ég horfi á næsta leik og við einbeitum okkur að ná í stig. Laga varnarleik og þétta okkur betur. Byrjum á því,“ sagði Jeffsy að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira