Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði eitt mark og lagði upp annað í 0-5 útisigri Kristianstads á Kungsbacka í sænsku úrvalsdeildinni í dag.
Með sigrinum komst Kristianstads upp í 3. sæti deildarinnar. Þetta var fyrsti leikur liðsins eftir HM-hléið.
Svava Rós skoraði og gaf stoðsendingu í fyrri hálfleiknum. Hún var svo tekin af velli í hálfleik.
Sif Atladóttir var einnig í byrjunarliði Kristianstad en var tekin af velli á 61. mínútu. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad sem hefur skorað flest mörk allra liða í sænsku deildinni á tímabilinu.
Ingibjörg Sigurðardóttir og Guðrún Arnardóttir léku allan leikinn í vörn Djurgården sem bar sigurorð af Limhamn Bunkeflo, 0-1. Eina mark leiksins kom beint úr hornspyrnu í uppbótartíma.
Þetta var annar sigur Djurgården í röð. Liðið er í 8. sæti deildarinnar. Guðbjörg Gunnarsdóttir lék ekki með Djurgården í dag.
Andrea Thorisson lék síðustu ellefu mínúturnar í liði Limhamn Bunkeflo sem er í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar.
