Skoðun

Innfluttu íslenzku blómin

Ólafur Stephensen skrifar
Frétt sem birtist í Fréttablaðinu 9. maí vakti dálitla athygli. Fyrirsögnin var „Innflutningur blóma mengandi og óþarfur“. Þar var rætt við Axel Sæland, eiganda Espiflatar, stærsta blómaframleiðanda landsins, sem sagði að innlend framleiðsla gæti vel staðið undir íslenzkum blómamarkaði og innflutningur væri ónauðsynlegur. Axel kvartaði sáran yfir því að tollar á blóm væru of lágir og kæmu í veg fyrir að íslenzkir blómabændur gætu hækkað hjá sér verðið. Þó þykir líklega flestum 1.130 króna tollur á tíu túlipana búnt, sem kostar 600 krónur í innkaupum, drjúg skattheimta.

Axel Sæland hélt því fram í viðtalinu að innflutningur á blómum væri langmest af sömu tegundum og ræktaðar eru hér á landi. Það er alls ekki rétt. Innlend framleiðsla á afskornum blómum er takmörkuð, hvort sem horft er á tegundir eða litaafbrigði af tegundum sem eru ræktaðar. Blómaverzlanir kvarta sáran undan því að úrvalið frá innlendum framleiðendum sé takmarkað, en innflutningur iðulega gerður of dýr með tollum.

Þótt íslenzkir blómaframleiðendur segi eitt í blöðunum, eru þeir sjálfir í raun ekki þeirrar skoðunar að innflutningur sé óþarfur. Félagi atvinnurekenda bárust þannig ábendingar um að Espiflöt seldi blómvendi með íslenzku fánaröndinni og fullyrðingunni „íslensk blóm“ í verzlunum, en vendirnir væru blanda af innlendum og innfluttum jurtum. Til að sannreyna þetta, og koma í veg fyrir að villt sé um fyrir neytendum, sendi félagið Neytendastofu kvörtun. Stofnunin hóf rannsókn á málinu og niðurstaðan er sú að Espiflöt viðurkennir að í blómvöndunum, sem eru merktir „íslensk blóm“, séu innfluttar grænar greinar af fjórum tegundum.

Fyrirtækið heldur því fram að það sé engu að síður í fullum rétti að nota fánaröndina og fullyrðinguna „íslensk blóm“ enda séu greinarnar ekki „einkennandi hluti vörunnar“. Hver sem verður niðurstaða Neytendastofu, liggur nú fyrir að jafnvel íslenzkir blómabændur sem segja innflutning óþarfan flytja inn blóm til að nota í vörur sínar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.




Skoðun

Sjá meira


×