Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - FH 2-3 | FH í 3. sætið eftir frábæran leik

Árni Jóhannsson skrifar
vísir/vilhelm
Leikur Vals og FH á Origo vellinum í 16. umferð PepsiMax deildar karla var mjög mikilvægur fyrir þær sakir að bæði lið eru komin í harða baráttu um að komast í Evrópukeppni á næsta tímabili. Úr varð hörkuleikur sem FH-ingar unnu með minnsta mun 2-3 en það var Morten Beck Andersen sem skoraði sigurmarkið þegar stutt lifði af leiknum.

Eftir markalausan fyrri hálfleik, sem hafði það yfirbragð að bæði lið vildu alls ekki tapa leiknum, varð allt vitlaust á fyrstu 20 mínútum seinni hálfleiks. FH-ingar fengu eina vítaspyrnu sem Steven Lennon skoraði en Valsmenn tvær sem Patrick Pedersen skoraði. 

Vítin sem Valur fékk voru á mjög gráu svæði og er líklegt að fyrra vítið hefði ekki átt að standa á meðan það seinna var líklega réttur dómur. 

Í stöðunni 2-1 skoraði Björn Daníel Sverrisson jöfnunarmark eftir að Morten Beck Andersen skallði boltann í stöng og eftir það varð leikurinn mjög harður og litu nokkur gul spjöld dagsins ljós en mál manna var það að rauða spjaldið lægi í loftinu.

Þegar um sjö mínútur voru eftir af leiknum fengu FH-ingar aukaspyrnu á hægri kantinum og framkvæmdi Brandur Olsen hana. Skrúfaði hann boltann á milli varnarlínu og markmanns sem skapaði usla í markteignum og virtist það vera að keyrt hafði verið inn í Hannes Þór í markinu þannig að boltinn var laus í teignum og hafði Morten Beck Andersen ekkert annað að gera en að ýta boltanum yfir línuna og tryggja FH sigurinn. Ræða þurfti atvikið og leitaði dómari leiksins ráða hjá aðstoðarmönnum sínum en markið stóð og stigin þrjú fóru til Hafnarfjarðar í kvöld.

Afhverju vann FH?

Þjálfari FH sagði sína menn hafa sýnt þrautseigju og er það líklegast sá kostur sem lið þarf að hafa á þessum tímapunkti mótsins. Þeir lentu í miklum mótbyr í leiknum en unnu sig út úr honum og uppskáru sigurinn með því að halda áfram og sýna góðan leik.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að finna markið í fyrri hálfleik en fengu fín færi til þess. Það breyttist í þeim seinni og verðum við að segja að dómarinn hafi hjálpað til enda dæmdar þrjár vítaspyrnur og tvær af þeim voru vafasamar verð ég að segja. Sigurður Hjörtur Þrastarsson hefur líklega dæmt auðveldari leiki en hann hefði mögulega átt að dæma þriðja mark FH-inga af en það stendur og þar við situr.

Hverjir stóðu upp úr?

Davíð Þór Viðarsson var valinn maður leiksins og er vel að því kominn en hann stýrði miðjunni hjá FH eins og hershöfðingi. Hjá Val var það Kristinn Freyr Sigurðsson sem stóð upp úr en það skapaðist mest hjá Val þegar hann hafði boltann en það var þó illa nýtt af liðsfélögum hans.

Hvað gerist næst?

Áfram heldur baráttan um sætir í Evrópukeppni félagsliða. Valsmenn þurfa að hífa sig upp en það eru Blikar sem bíða í næstu umferð og ef Valsmenn ætla að herja á annað sætið þá er það leikur sem þarf að vinnast.

FH-ingar fá Fylki í heimsókn í næstu umferð og þurfa þeir að sauma saman sigrana til að halda lífi í sinni baráttu. Í millitíðinni fara þeir á Meistaravellin og etja kappi við KR í undanúrslitum bikarsins en þar er einnig möguleiki á að ná sér í Evrópusæti.

Ólafur Jóhannesson: Dómarinn réð ekkert við þennan leik og hefur aldrei ráðið við svona leikiÞjálfari Valsmanna var að vonum ekki ánægður með leik sinna manna og þá sem sáu um leikinn á móti FH fyrr í kvöld. Hann var stuttur í spuna þegar blaðamaður spurði hann hvort hann vildi ræða dómara leiksins, Sigurð Hjört Þrastarsson en það voru nokkur atriði í leiknum sem féllu gegn Valsmönnum og hugsanlega kostuðu þá sigurinn í kvöld en Ólafur sagði hreint út:

„Hann réði ekkert við þennan leik og hefur aldrei ráðið við svona leiki“.



Svo mörg voru þau orð en þá var Ólafur spurður að því hvað hans menn hefðu gert rangt í leiknum.



„Við vorum bara daprir í kvöld og við vorum ekki í góðu standi í dag og það er góð spurning afhverju við vorum ekki í góðu standi í dag. Ég bara hef ekki útskýringar á því afhverju við vorum svona daprir að svo stöddu“.



„Þetta er nú ekki fyrsti leikurinn sem við töpum. Við vinnum okkur út úr þessu“, sagði þjálfari Valsmann þegar hann var spurður hvaða áhrif þetta tap myndi hafa á hans menn en Valur var á góðum sprett í deildinni og höfðu verið taplausir í sex umferðum fyrir þessa.

 

Ólafur Kristjánsson: Nafni minn mun líklega klára dómararumræðunaÞjálfari FH var að vonum sáttari þjálfarinn af tveimur líklega óánægðum þjálfurum með dómgæsluna. Kláraði hann umræðuna um dómgæsluna með því að segja „nafni minn mun líklega klára þá umræðu“. Hann var þess vegna spurður hvað FH gerði rétt í leiknum til að ná í stigin.

„Við vorum agaðir, við vorum þolinmóðir, við vorum þrautseigir og í fyrri hálfleik fannst mér við vera pínu hræddir við að halda boltanum. Við fundum ekki takt og hefðum mátt hitta markið með þessum skotfærum en gáfum engin færi á okkur. Í hálfleik ræddum við að ef við myndum halda skipulagi og aga þá myndum við klára þennan leik“.



Ólafur var því næst spurður að því hversu mikilvægur sigurinn væri fyrir hans menn og hvort að tímabilið hjá FH væri að verða að góðu tímabili.



„Hann er gríðarlega mikilvægur. Deildin er að spilast þannig að ef við hefðum tapað þessum leik þá hefðum við setið helvíti aftarlega á merinni en með því að vinna þá lyftum við okkur aðeins upp og finnum lyktina af því sem að FH hefur þekkt í mörg ár og það er lyktin sem við viljum finna“.



„Ég veit ekkert um það. Ég hef áður sagt það að þetta er annaðhvort lykillinn að Nangiala eða miðflokksmaður á Klausturbara. Upp í skýjunum þegar maður vinnur og svo í drullunni þegar við töpum. Þegar tímabilið er búið þá metum við hvort að tímabilið sé gott eða ekki“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira