Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur R. 3-1 ÍBV | Níunda tap ÍBV í röð

Gabríel Sighvatsson skrifar
vísir/daníel
Víkingur tók á móti ÍBV í Víkinni í dag. 16. umferð Pepsí Max deild karla var að hluta til leikin í dag.

Fyrirfram var ÍBV í vondum málum, langneðstir í deildinni og ekki mikil von. Sú von varð ekkert bjartari í dag en Víkingur hafði 2-1 sigur eftir að hafa verið mun sterkari aðilinn allan leikinn.

Óttar Magnús Karlsson var í sviðsljósinu í dag en hann skoraði tvennu fyrir Víking sem tryggði þeim sigurinn í dag. Telmo Canstanheira minnkaði muninn fyrir Eyjamenn áður en Kwame Quee lokaði þessum leik með 3. marki Víkinga.

Víkingar fjarlægjast því fallsvæðið á meðan útlitið verður æ svartara fyrir Eyjamenn.

Af hverju vann Víkingur?

Klár gæðamunur var á liðunum í dag, Víkingur er með mikið betra lið og Eyjamenn gátu lítið gert við látlausri sókn þeirra.

Víkingur hefði átt að skora fleiri mörk og jafnvel halda hreinu en klaufagangur þeirra við að nýta færin og einbeitingarskortur í vörn varð til þess að leikurinn endaði 3-1.

Hvað gekk illa?

ÍBV gekk illa að halda boltanum og byggja upp spil. Þar af leiðandi sköpuðu þeir sér ekki mörg færi.

Varnarleikurinn réði illa við spræka og hraða leikmenn Víkings á köntunum og Óttar Magnús inni í teig.

Hverjir stóðu upp úr?

Óttar Magnús Karlsson skoraði tvennu í dag og var besti maður vallarins. Svo má nefna Kwame Quee sem skoraði hitt markið og átti einnig stoðsendingu. Hann var sífellt að skapa hættu við mark ÍBV.

Það var ekki mikið að gera í vörninni en Sölvi Geir Ottesen stóð vaktina vel, var oft hættulegur í föstum leikatriðum og hefði getað skorað mark.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Víkings er gegn Breiðablik í undanúrslitum Mjólkurbikarsins og ríkir mikil spenna þar á bæ fyrir þeim leik. Næsti deildarleikur er hinsvegar stuttu eftir og þar fær liðið verðugt verkefni þegar þeir fara á Meistaravelli og freista þess að gera KR grikk.

ÍBV þarf kraftaverk til að falla ekki. Þeir mæta KA í næsta leik og er það einn af allra síðustu sénsum Eyjamanna til að snúa genginu við.

Arnar Gunnlaugs: „Professional” frammistaða

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R. var gríðarlega ánægður með frammistöðuna hjá sínu liði en þeir höfðu 3-1 sigur gegn ÍBV í Víkinni í dag.

„Þetta var góður leikur af okkar hálfu. Þetta var mjög „professional” frammistaða af okkar hálfu, við skorum 3 mörk. Það er erfitt að mæta liði sem er í raun hálffallið, særð dýr geta verið hættuleg.”

Arnar var virkilega ánægður með hvernig liðið svaraði kallinu en liðið hefur verið í erfiðleikum með að ná í úrslit og Arnar skafaði ekki utan af hlutunum eftir síðasta leik sem liðið tapaði gegn Stjörnunni.

„Það eru mikil þroskamerki í liðinu og við gerðum þetta á mjög fagmannlegan hátt. Það er hægt að kvarta og kveina að við hefðum átt að gera fleiri mörk og allt það en við stjórnuðum leiknum og vorum rólegir og yfirvegaðir í okkar aðgerðum. Ef ég á að kvarta yfir einhverju þá hefðum við átt að skora fleiri mörk.”

„Í stöðunni 2-1 þá veit maður aldrei en þetta var klaufalegt mark af okkar hálfu, við vorum hálfsofandi. Ég get ekki sagt að mér hafi liðið illa, þetta var leikur þar sem við sýndum mikil þroskamerki og stigum vel upp.”

Óttar Magnús Karlsson var að spila sinn annan leik fyrir liðið í dag. Hann hefur reynst mikill fengur, var maður leiksins og skoraði 2 mörk til að hjálpa Víkingi við að landa sigrinum.

„Það vita allir hvað Óttar er góður og hvað hann er mikilvægur fyrir okkar lið. Hann er búinn að koma mér á óvart hvað hann er „fit” og flottur og fellur eins og flís við rass í okkar lið. Ég held hann hafi mjög gaman af að spila með svona liði sem heldur bolta vel og þá er það okkar mál að nýta hans hæfileika, sem eru mjög miklir. ”

Víkingur hefur verið í fallbaráttu undanfarna leiki en með einum sigri eru þeir komnir upp í 8. sætið og Arnar horfir upp fyrir sig í töflunni.

„Við nálgumst Evrópusvæðið, þetta er mjög skrýtin deild núna, mjög stutt í fallbaráttu og mjög stutt í Evrópu. Ég leit á sigur KA í dag sem mjög flottan því þá nálgumst við Stjörnuna. Svona á að hugsa þetta, við eigum að hugsa þetta þannig að við séum að nálgast Evrópusæti en ekki að fjarlægast fallbaráttusætin. En við verðum að hafa í huga að það er stutt á milli feigs og ófeigs í þessu og við verðum að halda fókus.”

Næsti leikur Víkings er í undanúrslitum Mjólkurbikarsins og það er mikill spenningur fyrir þeim leik enda langt síðan Víkingur hefur komist svona langt í bikarkeppni.

„Það eru spennandi tímar framundan og þetta verður „epic” leikur á fimmtudaginn og við verðum klárir í þann leik. Við förum „all in” í þann leik og gerum allt til að landa okkar fyrsta bikarúrslitaleik síðan 1971, ég var ekki einu sinni fæddur þá!”

Ian Jeffs: Gæðamunur á liðunum

„Þú ert aldrei ánægður að tapa leik 3-1, það er bara þannig.” sagði Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, eftir níunda tap liðsins í röð.

„Það var ekkert rosalega mikill munur á liðunum, andstæðingurinn sýndi í seinni hálfleik að þeir voru með meiri gæði en við. Leikmenn gáfu allt í þetta og það var klárlega gæðamunur á liðunum.”

„Þeir voru hættulegri og voru að koma sér á síðasta þriðjung á meðan við vorum ekki nógu skapandi fram á við. Sóknargæði sem lið var munurinn á milli liðanna í dag.”

ÍBV er búið að eiga erfitt tímabil og það gengur lítið upp hjá liðinu þessa dagana. Þá virðast Eyjamenn ekki hafa það sem þarf til að snúa genginu við.

„Þetta er búið að vera erfitt hjá okkur. Leikmenn vantar sjálfstraust, það sést þegar við erum að reyna okkar uppspil. Leikmönnum líður ekkert rosalega vel með boltann og eru frekar að reyna að senda langa bolta fram í staðinn fyrir að reyna að tengja spil.”

„Við þurfum bara að halda áfram, það þýðir ekkert að grenja og hugsa um þennan leik, við þurfum að hugsa um næsta leik og bæta það sem er að, sem er margt.”

„Þetta eru bara gæðin í hópnum og við þurfum að vinna með hann. Okkar verkefni er að reyna að fá meira út úr þessum leikmönnum sem eru að spila. Flestir sem eru í hópnum hafa fengið tækifæri í sumar en því miður er þetta niðurstaðan, við erum neðstir í deildinni með 5 stig.”

Sindri Björnsson: Vonin er veik

Sindri Björnsson, miðjumaður ÍBV, var alls ekki sáttur eftir tapið gegn Víkingi í dag.

„Við sköpuðum okkur ekki mikið, ekkert frekar en í öllum öðrum leikjum. Víkingsliðið er gott lið, þeir gerðu vel og voru betri en við í dag. Frammistaðan var mjög döpur frá aftasta manni til fremsta.”



Sindri var ósáttur með frammistöðuna hjá öllu liðinu og sagði að leikmenn þyrftu að líta í eigin barm.

„Ég held að menn þurfi bara að finna það hjá sjálfum sér að gera sig ekki að fífli. Sama hvort það séu 99% líkur á að liðið fari niður eða ekki, þetta er bara fótboltaleikur og við þurfum að setja kassann út og vinna hvern einasta leik sem við spilum.”

„Ég á hræðilegan dag í dag, eins og margir aðrir í liðinu og ég held ég verði að byrja á að líta á sjálfan mig áður en ég fer að tala um liðið.”

Það er nánast bókað að ÍBV fari niður í Inkasso-deildina. Eygja Eyjamenn einhverja von?

„Ég hef ekki hugmynd hvernig staðan er. Vonin er mjög veik.”

Kári Árna: Allt mögulegt í þessari deild

Kári Árnason, leikmaður Víkings R., var ánægður með stigin 3 og frammistöðuna sem liðið sýndi í dag.

„Mér fannst við spila vel, við áttum þetta skilið. Við sköpuðum helling af færum og vorum mjög solid til baka þannig að þetta var bara mjög verðskuldað.”

ÍBV er langneðsta liðið í deildinni og fyrirfram var klárlega búist við að Víkingur myndi klára verkið.

„ÍBV eru með sterkt lið, það er enginn leikur gefins í þessari deild. Það sýnir sig bara þegar HK eru komnir í 3. sæti eftir að hafa unnið liðið sem er með 10 stiga forskot.”

„Það getur allt gerst ennþá og þetta lítur allt í lagi út en við þurfum að bæta ofan á það.”

Víkingsliðið var mun betra í dag heldur en í síðasta leik. Kallað var eftir betri frammistöðu eftir þann leik og leikmenn svöruðu kallinu í dag.

„Við þurftum meira „intensity” frá Stjörnuleiknum, hann var engan veginn nógu góður. Hann var til staðar og við opnuðum svæði fyrir Ella (Erling Agnarsson) og Ágúst (Eðvald Hlynsson) til að fá boltann og þar af leiðandi opnuðust kantarnir og við náðum að spila okkur vel í gegn. Þetta var töluvert skárra en í síðustu viku.”

Víkingur fjarlægist aðeins fallsvæðið en erfitt er að spá í spilin þegar öll liðin eru að taka stig af hvoru öðru eins og sýndi sig í dag.

„Þetta er einn pakki og við einbeitum okkur að einum leik í einu. Ef við náum úrslitum þá er allt mögulegt í þessari deild. Það er bikar á fimmtudaginn og við einbeitum okkur að því.”

Kári lýsti Óttari Magnúsi Karlssyni sem hvalreka fyrir liðið en það er óhætt að segja að hann sé að skila sínu eftir 3 mörk í fyrstu 2 leikjum með liðinu.

„Þetta er frábær leikmaður, það sést á æfingum og hann sýnir það í dag. Þetta er hvalreki fyrir hvaða lið sem er í þessari deild, tala nú ekki um okkur og baráttuna sem við erum í núna. Þetta er líka framtíðar „signing” og mjög gott fyrir klúbbinn.” sagði Kári að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira