Enski boltinn

Arsenal borgar Chelsea átta milljónir punda fyrir eftirmann Koscielny

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Luiz.
David Luiz. Vísir/Getty
David Luiz yfirgefur Chelsea í annað skiptiðá ferlinum og nú fer hann ekki eins langt og síðast

Arsenal hefur gengið frá kaupunum á brasilíska varnarmanninum David Luiz frá Chelsea en kaupin munu ganga í gegn á lokadegi gluggans.

Arsenal mun borga Chelsea átta milljónir punda fyrir þennan 32 ára miðvörð sem er að yfirgefa Chelsea í annað skiptið á ferlinum.

David Luiz kemur í stað Laurent Koscielny sem Arsenal seldi til Bordeaux fyrir 4,6 milljónir punda. David Luiz fer í læknisskoðun í dag og skrifar eftir það undir tveggja ára samning.





Arsenal er líklegt til að bæta enn frekar í vörnina í dag með því að ganga frá kaupum á bakverðinum Kieran Tierney frá Celtic sem mun kosta 25 milljónir punda.

David Luiz hefur samtals spilað í sex og hálft ár hjá Chelsea og er með 11 mörk í 160 úrvalsdeildarleikjum fyrir félagið.

David Luiz kom fyrst til Chelsea frá Benfica í janúar 2011 en Chelsea seldi hann svo til Paris Saint Germain í júní 2014. Hann var hins vegar kominn aftur til Chelsea í ágúst 2016 en yfirhefur Chelsea nú í annað skiptið á ferlinum.

Chelsea má ekki kaupa nýja leikmenn fyrr en næsta sumar þar sem félagið er í félagsskiptabanni.

David Luiz er annar miðvörðurinn sem Chelsea lætur frá sér í sumar því félagið samdi ekki aftur við Gary Cahill sem rann út á samning í sumar.

Miðverðir Chelsea eru núna Antonio Rudiger, Kurt Zouma, sem var á láni hjá Everton síðasta vetur, og svo Daninn Andreas Christensen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×