Fótbolti

Breiða­blik leitar að leik­mönnum en reglur UEFA flækja málin

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ian Jeffs hefur upplifað frekar óvenjulega fyrstu mánuði í starfi.
Ian Jeffs hefur upplifað frekar óvenjulega fyrstu mánuði í starfi. vísir / bjarni

Mikið hefur kvarnast úr Íslandsmeistaraliði Breiðabliks frá síðasta tímabili. Minna en mánuður er til stefnu fram að næsta einvígi í Evrópubikarnum og þar gætu Blikarnir þurft að mæta fáliðaðir.

„Við getum orðað það þannig, það er nóg að gera“ sagði Ian Jeffs, sem tók við þjálfarastarfinu hjá Breiðabliki í haust og hefur þurft að sinna miklum skrifstofustörfum samhliða því að koma sínu handbragði á liðið. 

„Þetta er ákveðið hrós fyrir stelpurnar og Breiðablik, að þessar stelpur séu að fara frá félaginu í atvinnumannadeildir í Evrópu. Þetta er gott og slæmt. Gott fyrir leikmennina en kannski ekki jafn gott fyrir okkur í þjálfarateyminu, að missa þessa leikmenn“ bætti Jeffs við en viðtal við hann úr Sportpakka Sýnar í gærkvöldi má sjá hér fyrir neðan.

Tækifæri fyrir unga leikmenn

Leikmennirnir sem hafa farið voru líka engir aukaleikarar. Tvær landsliðskonur, þrír bandarískir atvinnumenn, sú stoðsendingahæsta í Bestu deildinni og sú besta í Bestu deildinni á síðasta tímabili hafa vitjað nýrra ævintýra erlendis.

„Við erum að vinna á fullu í leikmannamálum og erum að reyna að fá gæða leikmenn inn til að koma í staðinn fyrir þessa leikmenn sem hafa farið frá okkur. Við erum í mikilli skrifstofuvinnu við þetta núna, en svo koma líka bara ákveðin tækifæri fyrir ungar stelpur sem geta tekið næsta skref og fengið stærra hlutverk í meistaraflokksliðinu í sumar.“

Farnar frá Breiðabliki

  • Andrea Rut Bjarnadóttir til Anderlecht
  • Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir til Parma
  • Birta Georgsdóttir til Genoa
  • Heiða Ragney Viðarsdóttir til Eksilstuna
  • Katherine Devine
  • Katrín Ásbjörnsdóttir er hætt
  • Kyla Elizabeth Burns
  • Samantha Rose Smith

Evrópuleikur eftir minna en mánuð 

Næsti leikur liðsins er eftir minna en mánuð og er ekki af minni gerðinni. Breiðablik mætir Svíþjóðarmeisturum BK Hacken í átta liða úrslitum Evrópubikarsins þann 11. febrúar.

Félagaskiptaglugginn hér innanlands opnar hins vegar ekki fyrr en 5. febrúar, þannig að ef Blikarnir ætluðu að sækja leikmenn úr öðrum íslenskum liðum er tíminn knappur. 

Svo er regluverk evrópska knattspyrnusambandsins að flækjast aðeins fyrir Blikunum.

„Þetta eru bara reglur hjá UEFA. Við megum bara taka þrjá nýja leikmenn inn í hópinn frá því í síðasta leik. Við þurfum bara að sjá hvernig það þróast og hvað við verðum með stóran hóp.“


Tengdar fréttir

Blikarnir eru búnir að missa 34 mörk og 25 stoðsendingar

Þrír af öflugustu sóknarleikmönnum Íslandsmeistara Breiðabliks í kvennafótboltanum eru horfnir af braut og reyna fyrir sér í atvinnumennsku. Besta lið Bestu deildar kvenna þarf því að fylla í stór skörð næsta sumar.

Birta eltir ástina og semur við Genoa

Birta Georgsdóttir er gengin til liðs við Genoa á Ítalíu frá Íslandsmeisturum Breiðabliks. Hún mun því spila fyrir sama lið og kærasti sinn, landsliðsmaðurinn Mikael Egill Ellertsson. 

„Ég elska þig Ísland, takk fyrir allt!“

Samantha Smith, ein allra besta knattspyrnukona hér á landi síðustu ár, hefur nú kvatt landið en kveðst að eilífu verða þakklát fyrir tíma sinn hér.

Andrea til Anderlecht

Andrea Rut Bjarnadóttir er gengin til liðs við Anderlecht í Belgíu. Hún kemur til félagsins frá Breiðabliki þar sem hún hefur spilað síðustu þrjú tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×