Enski boltinn

Gluggadagur á Englandi - Hvað gerðist í gærkvöldi?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Victor Camarasa er orðinn leikmaður Crystal Palace
Victor Camarasa er orðinn leikmaður Crystal Palace vísir/getty
Lokað verður fyrir félagaskipti á Englandi í dag klukkan 16:00 að íslenskum tíma og er búist við að nokkur af stóru liðunum muni láta til sín taka á markaðnum í dag.

Crystal Palace styrkti miðsvæðið sitt verulega í gærkvöldi þar sem gengið var frá kaupum á írska miðjumanninum James McCarthy frá Everton auk þess sem Palace fékk spænska miðjumanninn Victor Camarasa að láni frá Real Betis en hann lék sem lánsmaður hjá Cardiff á síðustu leiktíð.

Það var hins vegar ekki bara gleði á skrifstofu Palace í gær því skærasta stjarna félagsins, Wilfried Zaha lagði fram ósk um sölu og má ætla að hann verði orðinn leikmaður Everton í lok dags.

Everton nældi í franska hægri bakvörðinn Djibril Sidibe að láni frá Monaco og Danny Welbeck kom á frjálsri sölu til Watford. Þá gengu Man City og Juventus loks frá skiptunum á bakvörðunum Joao Cancelo og Danilo en þau félagaskipti höfðu lengi verið í kortunum.

Vísir mun fylgjast grannt með gangi mála á Englandi í dag en stærstu skiptin sem eru líkleg til að ganga í gegn í dag eru Kieran Tierney og David Luiz til Arsenal, Giovani Lo Celso og Ryan Sessegnon til Tottenham og Wilfried Zaha til Everton.

Þá er Romelu Lukaku staddur á Ítalíu þessa stundina og mun að öllum líkindum vera orðinn leikmaður Inter Milan í lok dags. Sögusagnir eru á kreiki um að Man Utd gæti nýtt peninginn frá Inter til að versla leikmann á síðustu stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×