Ekki er ljóst hvernig E. coli smitaðist frá dýrum í þá sem veiktust í Efstadal II í júlí. Alls veiktust níu börn af bakteríunni.
Fram kemur í tilkynningu frá Matvælastofnun að stofnunin, í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og rekstraraðila Efstadals II, hafi tekið 41 sýni af matvælum, sem og 25 sýni úr dýrum, til að reyna að varpa ljósi á orsök sýkinganna.
Samkvæmt viðtölum við sjúklingana og aðstandendur þeirra áttu þau sem veiktust öll sameiginlegt að hafa borðað ís. Baktería fannst í einu sýni sem tekið var af ís en það var önnur gerð en sú sem olli veikindunum. Sú gerð af E. coli fannst í sýni úr kálfastíu.
Segir Matvælastofnun að þetta bendi til að ísinn gæti hafa mengast á einhvern hátt frá umhverfi eða starfsfólki. Einnig getur verið að smit gæti hafa borist eftir snertingu við kálfa eða umhverfi þeirra.
Íssala hófst á ný í Efstadal II í byrjun mánaðarins í kjölfar sýnatökunnar. Búið er að koma fyrir handþvottaaðstöðu fyrir gesti við innganginn og munu dýr ekki ganga laus.
Bakterían E. coli er hluti af náttúrulegri flóru dýra og manna, sumir stofnar E. coli bera meinvirknigen sem geta verið sjúkdómsvaldandi. Hafa slíkar bakteríur fundist í 30 prósentum sýna af lambakjöti og 11,5 prósentum af nautakjöti.
Innlent