Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - ÍA 1-0 | Lennon tryggði FH risa sigur

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/daníel
FH tók á móti ÍA í 15.umferð Pepsi Max deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 1-0 sigri heimamanna sem þurftu bráðnauðsynlega á 3 stigum að halda.

 

Það voru gestirnir sem byrjuðu betur í kvöld en þeir voru mjög grimmir og ákveðnir fyrsta hálftímann. Þeir áttu fyrsta hættulega færið á 10.mínútu þegar Hallur Flosason var kominn einn gegn Daða Frey Arnarssyni í marki FH en Daði varði frábærlega frá Halli.

 

Skagamenn áttu frábæra skyndisókn stuttu síðar sem endaði með frábæru skoti frá Tryggva Hrafn Haraldssyni en Daði Freyr varði aftur frábærlega fyrir heimamenn. Gestirnir fengu annað dauðafæri 10 mínútum síðar en Lars Marcus Johansson var einn og óvaldaður í teignum en skalli hans fór rétt framhjá markinu. 

 

FH-ingar misstu Guðmund Kristjánsson af velli eftir 32.mínútu en hann þurfti að fara af velli vegna meiðsla en Brynjar Ásgeir Guðmundsson leysti hann af hólmi. FH náði að vinna sig betur inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiksins en staðan var þó áfram markalaus í hálfleik.

 

FH-ingar komu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og Steven Lennon fékk frábært færi snemma en hann hitti boltann illa og setti hann framhjá! 

 

Eftir þetta datt leikurinn nokkuð niður og bæði lið áttu erfitt með að skapa sér hættuleg færi. Það var síðan loksins á 89.mínútu þegar títtnefndur Lennon skoraði frábært mark fyrir heimamenn. Hann sendingu inn fyrir, boltinn fór í gegnum klofið á Halli og Lennon neglir boltanum upp í vinkilinn! Frábær afgreiðsla og Lennon að tryggja sínum mönnum dýrmæt 3 stig.

 

Gestirnir sóttu hart að FH-ingum í uppbótartíma og þeir áttu líklega að fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í höndina á Brynjari Ásgeir en dómari leiksins dæmdi ekkert. Leikurinn fjaraði út og FH vann góðan sigur. Lokatölur, 1-0.

 

 

Sindri Snær og Björn Daníel berjast um boltann.
Af hverju vann FH?

Líklega hefði jafntefli verið sanngjörn niðurstaða, bæði lið fengu færi en liðunum gekk illa að koma boltanum í netið. Að lokum var munurinn á liðunum gæðin sem búa í Steven Lennon. Hann kláraði færið frábærlega.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá FH var Lennon bestur en hann var síógnandi og er ávallt hættulegur. Daði Freyr var flottur í markinu og átti tvær frábærar vörslur í fyrri hálfleik. Pétur Viðarsson var síðan öflugur í vörninni.

 

Hjá gestunum var Sindri Snær Magnússon flottur í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Lars Marcus var flottur allt þar til hann fór útaf en hann varð fyrir hnjaski í síðari hálfleik.

 

Hvað gekk illa?

Færanýtingin hjá skagamönnum var ekki góð í fyrri hálfleik. Þeir fengu 3-4 frábær færi og hefðu átt að vera allavega einu marki yfir í hálfleik. Á endanum þá kostaði það þá stig í dag! Þeir verða að gera betur þegar þeir fá svona færi.

 

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik næstkomandi sunnudag. Skagamenn taka á móti Breiðablik upp á Akranesi klukkan 16:00 á meðan FH-ingar fara á Origo völlinn og mæta þar Valsmönnum klukkan 20:00.

 

Jóhannes Karl hundfúll með dómara kvöldsins.vísir/daníel
Jói Kalli: Dómarinn sá bæði vítin en þorði ekki að dæma

Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA var svekktur eftir tap sinna manna gegn FH í kvöld. Hann sagði muninn á liðunum einfaldlega vera Steven Lennon.

 

„Steven Lennon var það sem skipti máli í restina. Þeir voru heppnir hvernig boltinn datt með þeim þarna en hann kláraði þetta auðvitað frábærlega og ég er gríðarlega svekktur að hafa ekki fengið neitt út úr þessum leik eftir að við höfðum verið frábærir.”

 

„FH-ingar sköpuðu sér lítil sem engin færi en Lennon kláraði þetta færi fáranlega vel.”

 

Jóhannes Karl var sammála því að það hafi verið mjög svekkjandi að hafa farið með 0-0 inn í hálfleikinn.

 

„Við fengum einhver 3-4 dauðafæri inn í markteig og vítateig. Frír skalli inn í markteig sem við náum ekki að koma yfir línuna. Auðvitað hefðum við að öllu eðlilegu átt að fara með forystu inn í hálfleikinn en því miður gekk það ekki.”

 

„Samt sem áður komum við gríðarlega sterkir inn í síðari hálfleikinn og FH-ingar sköpuðu sér ekkert og það gerir þetta ennþá sárara.”

 

Það leit út fyrir að skagamenn hafi átt að fá vítaspyrnu í uppbótartíma. Jóhannes Karl var alls ekki sáttur með dómara leiksins og sagði hann ekki hafa þorað að dæma víti.

 

„Fyrir utan þetta í uppbótartímanum þá vörðu FH-ingar með hendinni í fyrri hálfleik á nær sem dómarinn segist ekki hafa séð. Mér finnst það voðalega skrýtið þegar dómari sem á að staðsetja sig þokkalega nálægt svæðinu þar sem boltinn er í umferð.”

 

„Maður sér þetta svo auðveldlega frá vítateigslínunni og í seinni hálfleik gerir Brynjar tilraun í að blokka skot og setur hendina út, ég er virkilega ósáttur þar sem ég held að dómarinn hafi séð þetta í bæði skiptin og ekki þorað að dæma víti.”

 

Skagamenn hafa fengið núll stig í seinustu tveimur leikjum gegn Val og FH. Jóhannes Karl er samt sem áður ánægður með sína menn og segir þá hafa verið frábæra í þessum tveimur leikjum.

 

„Já algjörlega. Fótbolti er þannig að þú getur átt góðan leik og þú getur gefið allt sem þú átt inn í leikina en stundum færðu ekkert úr leikjunum þrátt fyrir að gefa allt í þetta. Það sem ég er virkilega ánægður með strákana er að þeir hafa verið frábærir í báðum leikjum og þetta eru tvö virkilega svekkjandi töp,” sagði Jóhannes Karl að lokum.

 

Pétur Viðarsson stöðvar Tryggva Hrafn Haraldsson.vísir/daníel
Davíð Þór: Lífsnauðsynlegur sigur

Davíð Þór Viðarsson fyrirliði FH var gríðarlega sáttur með sigur sinna manna gegn ÍA í kvöld. Hann sagði þetta hafa verið mikinn karaktersigur.

 

„Þetta var mikill karaktersigur fyrir okkur í kvöld. Við vorum í tómu basli í fyrri hálfleik og þeir voru miklu betri en við en sem betur fer náðum við að snúa þessu við í seinni hálfleik og vorum sterkari aðilinn þar.”

 

Davíð var sammála því að þeir hafi kannski verið örlítið heppnir að vera ekki undir í hálfleik en gestirnir voru töluvert sterkari í byrjun leiks.

 

„Já heldur betur, þeir stjórnuðu algjörlega leiknum og við vorum alltof langt niðri og langt frá mönnunum okkar. Bara í algjöru basli en við náðum aðeins að laga þetta fyrir hlé og síðan í seinni hálfleik gerðum við ákveðnar taktískar breytingar og það virkaði. Við vorum miklu betri í seinni hálfleiknum heldur en þeim fyrri.”

 

Hann var sammála því að það er gulls ígildi að vera með mann eins og Steven Lennon í sínu liði.

 

„Hann er alltaf líklegur. Hann var búinn að fá 1-2 færi í leiknum þar sem hann hefði kannski átt að gera betur en þetta færi þar sem hann skorar er stórkostlega vel gert. Hann er ótrúlega öflugur leikmaður og hann hefur reynst okkur hrikalega vel í gegnum tíðina.”

 

Davíð sagði að lokum að þetta væri lífsnauðsynlegur sigur en FH færist lengra frá fallsæti með sigrinu og eru komnir upp í evrópusætisbaráttuna.

 

„Þetta var virkilega jákvætt, lífsnauðsynlegur sigur og við erum búnir að jafna skagann að stigum. Nú þurfum við bara að sjá hvernig umferðin fer og við þurfum núna að halda áfram og þetta var ákveðinn grundvöllur upp á framhaldið. Við þurfum að byggja ofan á þetta,” sagði Davíð Þór að lokum.

 

Ólafur á hliðarlínunni í kvöld.vísir/daníel
Ólafur K: Hvað er að vera betri?

Ólafur Kristjánsson þjálfari FH var mjög sáttur með sigur sinna manna gegn ÍA í kvöld en FH skoraði mjög seint í leiknum til að tryggja sér sigurinn.

 

„Bara eins góður og allir sigrar. 1-0 sigrar og 3 stig þetta var frábært í kvöld.”

 

Skagamenn voru grimmir í byrjun og voru sterkari aðilinn. Óli vildi ekki meina að þeir hafi verið betri.

 

„Við getum ekki alltaf stjórnað því hvort við séum aftarlega eða ekki. Við gáfum ákveðin svæði eftir og því fór sem fór. Hvað er að vera betri? Ég veit það ekki. Ef þú ert mikið með boltann og tapar leiknum þá færðu ekkert út úr honum þannig að ég er ánægður eftir leik.”

 

Brandur Olsen var ekki í leikmannahóp FH í kvöld en hann er að glíma við meiðsli. Óli sagði að lokum að það væri ekki ljóst hvort hann sé lengi frá.

 

„Það er ekki vitað en það kemur vonandi í ljós á næstu dögum,” sagði Ólafur Kristjánsson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira